145. löggjafarþing — 144. fundur,  1. sept. 2016.

eðli og tilgangur þjóðaratkvæðagreiðslna.

[17:56]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Það er rétt að taka undir með öðrum sem hér hafa talað um að þjóðaratkvæðagreiðslur verði vaxandi og þurfa að fara fram í vaxandi mæli. En það er mikilvægt að finna þeim rúm þannig að þær raski ekki heldur þeim mikilvæga árangri sem við höfum náð með þingræði og þingræðiskerfi. Það verður að vera áfram eftirsóknarvert fyrir kjósendur að mæta á kjörstað og kjósa fólk til þings.

Þjóðaratkvæðagreiðslur eru líka þannig að þær er hægt að misnota með margvíslegum hætti. Við heyrum oft sagt t.d. að í þjóðaratkvæðagreiðslunni um stjórnarskrána 2012 hafi þjóðin samþykkt nýja stjórnarskrá. En þar var ekki spurt um það heldur var spurt hvort þjóðin vildi fá frumvarp byggt á tillögum stjórnlagaráðs lagt fyrir Alþingi. Sá ríkisstjórnarmeirihluti sem þá var við völd stóð við það og skilaði því verki til þingsins. Málið dagaði hins vegar uppi hér. Ég tel að sú ákvörðun þjóðarinnar bindi okkur áfram í stjórnmálunum en við eigum að gæta þess að oftúlka ekki eða rangtúlka vilja þjóðarinnar þegar við drögum ályktanir af þjóðaratkvæðagreiðslum.

Annað dæmi um hættulega þjóðaratkvæðagreiðslu er þjóðaratkvæðagreiðslan í Bretlandi þar sem fólki var boðið upp á að velja að fara út úr tilteknu ástandi án þess að vita hvað tæki við. Fólk sagði já við því að fara út úr tilteknu ástandi. En nú er komið upp gríðarlegt óvissuástand þar sem ríkisstjórn Bretlands heldur, eftir þriggja mánaða ráðleysishjal, hugarflæðisfund um hvað gæti mögulega tekið við, en er með tvennt algerlega ákveðið; að þjóðin fái ekki að ákveða hvert framhaldið verði og að ekki verði lagt fyrir þingið hvert framhaldið eigi að vera. Það er mjög öfugsnúið. Ef þú býður fólki á annað borð upp á þjóðaratkvæði áttu að bjóða því upp á afmarkaði kosti. Allt þetta er eitthvað sem við þurfum að læra af í framhaldinu.