145. löggjafarþing — 144. fundur,  1. sept. 2016.

eðli og tilgangur þjóðaratkvæðagreiðslna.

[17:59]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég get tekið undir ýmislegt af því sem hv. þm. Árni Páll Árnason sagði hér áðan. Það er nefnilega svo að þó að hugmyndin um aðkomu þjóðarinnar með beinum hætti í þjóðaratkvæðagreiðslum kunni að hljóma vel í fyrstu felur hún ekki í sér einhlíta lausn á öllum vandamálum. Ég er sammála því sjónarmiði sem hér hefur komið fram að þingræðið og fulltrúalýðræðið verði áfram grunnstoð í stjórnskipun okkar.

Ég hef hins vegar margoft á þessu kjörtímabili og því síðasta lýst því í umræðum að ég teldi rétt að gefa þjóðaratkvæðagreiðslum meira rými og sterkari stöðu í stjórnarskrá okkar en nú er. Nú er gert ráð fyrir þjóðaratkvæðagreiðslum í ákveðnum tilvikum, þ.e. ef um er að ræða synjun forseta og í nokkrum sértækum atriðum öðrum. Þess vegna hef ég unnið af heilindum að þeirri tillögu sem var til umræðu fyrr í dag og er hluti af frumvarpi hæstv. forsætisráðherra. Sú tillaga er auðvitað ekki skrifuð nákvæmlega eins og ég vildi hafa hana heldur er málamiðlun milli ólíkra sjónarmiða. En ég tel hins vegar að með því að gefa kost á bindandi þjóðaratkvæðagreiðslum í þeim tilvikum sem þar eru tilgreind værum við að stíga mjög stórt skref í því að auka vægi beins lýðræðis í landinu, þó með þeim hætti að ákveðnar kröfur eru gerðar bæði um að það sé víðtækur áhugi á málefninu og víðtæk krafa um að slík atkvæðagreiðsla fari fram og eins lágmarksskilyrði um (Forseti hringir.) stuðning við niðurstöðu svo hún sé bindandi. Í því sambandi eru nefnd ákveðin prósentumörk sem ég held að (Forseti hringir.) geti verið rýmileg frá báðum sjónarmiðum, bæði þeirra sem óttast að það verði taktík (Forseti hringir.) að sitja heima og eins hjá þeim sem óttast að litlir minnihlutahópar (Forseti hringir.) geti ráðið of miklu um niðurstöðuna ef almennt áhugaleysi er ríkjandi.

(Forseti (BjÓ): Forseti vill biðja hv. þingmenn um að gæta að tímamörkum.)