145. löggjafarþing — 144. fundur,  1. sept. 2016.

eðli og tilgangur þjóðaratkvæðagreiðslna.

[18:07]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég vil þakka fyrir þessar umræður. Það er mikilvægt að við skoðum vel hvernig við viljum að framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna sé háttað og hvað verði síðan um þjóðaratkvæðagreiðslurnar. Það var þannig á síðasta kjörtímabili þegar verið var að undirbúa væntanlega þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild að Evrópusambandinu að settar voru mjög skýrar reglur um hvað þarf til til þess að þjóðaratkvæðagreiðsla sé ekki bara bindandi heldur þarf þjóðaratkvæðagreiðslu líka að vera þannig háttað að hún sé framkvæmd af upplýstum almenningi. Það er mjög mikilvægt. Jafnframt er mjög mikilvægt að spurningarnar séu þannig orðaðar að þær séu ekki leiðandi. Það er mjög mikilvægt að hafa í huga ítarefni sem þarf að fylgja spurningunum og langbest að það sé hlutlaus aðili sem sér um það, t.d. Félagsvísindastofnun Háskólans, Siðfræðistofnun, þannig að ekki sé hægt að varpa skugga á neinn hluta framkvæmdarinnar. Þegar við tölum t.d. um þjóðaratkvæðagreiðslu um flugvöllinn átti sér stað ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla hjá Reykjavíkurborg sem Reykjavíkurborg telur sig hafa framfylgt. Síðan er kallað eftir þjóðaratkvæðagreiðslu um staðsetningu flugvallarins og þá verður maður að spyrja sig: Ef við ætlum að fara út í svona þjóðaratkvæðagreiðslur, þar sem ákveðinn popúlismi er í gangi á þinginu, eigum við þá t.d. að leggja fram þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort við viljum hafa Vaðlaheiðargöng? Er það ekki málefni sem skiptir alla þjóðina líka máli? Við verðum að passa okkur á að láta þjóðaratkvæðagreiðslur ekki fara að snúast í ranghverfu sína. (Forseti hringir.) Ég mundi vilja óska þess að ég gæti talað miklu meira um þetta mál (Gripið fram í: Heyr, heyr.) en því miður er tíminn knappur og bið ég virðulegan forseta velvirðingar á því að hafa farið yfir tímamörk mín.

(Forseti (BjÓ): Forseti tekur þetta til greina og segir bara allt í lagi, hv. þingmaður.)