145. löggjafarþing — 144. fundur,  1. sept. 2016.

eðli og tilgangur þjóðaratkvæðagreiðslna.

[18:17]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég held að það dugi að svara hv. 10. þm. Suðvest., Þorsteini Sæmundssyni, vegna þess að hann fór einmitt inn á atriði sem eru þess virði að ræða í þessari umræðu. Ég veit að ég hef ekki nægan tíma og við höfum ekki nægan tíma til að fara nógu vel yfir þetta allt saman, en þar sem hv. þingmaður nefndi 70 þúsund undirskriftir til stuðnings þess að hafa þjóðaratkvæðagreiðslu um þetta, þá tek ég fram að ég styð það. Enda sendi ég bréf til annars hv. flutningsmanns þessarar tillögu þar sem ég lýsti útgáfu af henni sem ég mundi vera með á, sem fjallaði um þjóðaratkvæðagreiðslu um þetta mál en væri hins vegar þannig að það væri eitthvert verkefni fyrir hendi.

Spurningin í þeirri tillögu sem hv. þingmaður talar um er skýr. Svarið er það hins vegar ekki. Það er einfalt já/nei svar og ekkert meira um það hver eigi að gera hvað næst. Ef menn ætla að hafa einhver raunveruleg áhrif á flugvallarmálið þarf að gera eitthvað og við vitum hvað það er. Það þarf að endursemja við borgina. Ég mundi því leggja til að tillagan fæli í sér að fela hæstv. innanríkisráðherra að endursemja við borgina og binda þá ákvörðun við atkvæði þjóðarinnar. Það væri þjóðaratkvæðagreiðsla sem hefði raunveruleg áhrif. Það væri á þann hátt bindandi þjóðaratkvæðagreiðsla og ég skal glaður vera meðflutningsmaður á slíku máli. Bara til að hafa það á hreinu.

Hv. þingmaður fór líka yfir þær 70 þúsund undirskriftir vegna þess að ég nefndi að það væri mikilvægt hvaðan ákvörðunin kæmi. Það er vegna þessara undirskrifta sem ég mundi vera með á slíku máli, vegna þess að ég viðurkenni að þarna eru 70 þúsund undirskriftir og ákallið er skýrt. Málið er vissulega umdeilt. Þetta er sama afstaða og ég hef gagnvart því að styðja þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarumsókn að Evrópusambandinu. Ákallið er mjög skýrt og hefur margsinnis verið gert mjög skýrt.

Ég hygg að við hv. þingmenn séum ekkert ósammála um hvað það er sem við viljum gera heldur hvernig við viljum gera það. Ég er ekki til í að fara að draga kjósendur á kjörstað undir þeim formerkjum að þeir hafi völd sem þeir hafa ekki. Ég vil gefa þeim valdið. Ég vil að þeir hafi valdið sjálfir og ákveði eitthvað. Og það er ekki nóg að spurningin sé skýr heldur þarf svarið og afleiðingar (Forseti hringir.) svarsins líka að vera skýrt. Það er grundvallaratriði. Hv. þingmaður lýkur ræðu sinni á að vitna í söngtexta og segir: Bara þegar mér hentar. (Forseti hringir.) Nei, virðulegi forseti. Það er tilfellið við ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslur, það er ekki tilfellið við bindandi. (BirgJ: Heyr, heyr.)