145. löggjafarþing — 144. fundur,  1. sept. 2016.

um fundarstjórn.

[18:25]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég vil taka undir með kollegum mínum en líka benda á að nú er þessi vika að líða undir lok og enn eru ekki komnir neinir listar frá ríkisstjórnarflokkunum um hvaða mál á að klára á þessu þingi áður en því lýkur. Við erum að færast óðfluga nær þeirri dagsetningu þegar þingi á að vera lokið og nýtt þing tekur við. Það heyrir til algerra undantekninga, það er algert nýmæli að við eigum að fara að funda á nýjum þingtíma sem hefst annan þriðjudag í september.

Ég verð að segja að ég hef orðið fyrir verulegum vonbrigðum með ríkisstjórnarflokkanna því að ekki virðist vera staðið við loforðið sem forseti gaf um að það kæmi ný starfsáætlun áður en þessi vika væri liðin. Ég er orðin mjög uggandi og velti fyrir mér hvort verið sé að notfæra sér þá góðu vinnuhætti (Forseti hringir.) sem minni hlutinn hefur sýnt hér undanfarið.