145. löggjafarþing — 144. fundur,  1. sept. 2016.

samningur Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur.

783. mál
[18:47]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ógn úti um allan heim, ég held að það sé alveg rétt. Þá spyr ég sjálfan mig, hvers vegna í ósköpunum að opna á þá ógn? Hvers vegna að opna allar gáttir hér fyrir innflutningi matvara í ljósi þess sem fram kom í máli hv. þingmanns að um allan heim hafa menn áhyggjur af því sem er að gerast hvað þetta varðar, sjúkdóma í búfé sem við leggjum okkur til munns í okkar fæðu? Hv. þingmaður vísað til umræðu og rannsókna sem fram færu á vegum Evrópusambandsins, á vegum Sameinuðu þjóðanna og annarra alþjóðlegra stofnana, vísaði í samsvarandi umræðu hér heima hjá stofnunum sem sinna þessum málum. Ég hef ekki heyrt betur en sérfræðingar sem gerst þekkja til þessara mála hér vari við því að við höldum út á þessa braut, að opna fyrir aukin viðskipti með kjötvöru sérstaklega og síðan náttúrlega fyrir utan öll hin atvinnutengdu álitamál sem þessu tengjast.

Vegna þess að umræðan fer nú fram, athugun og vinna erlendis og hérlendis, þá hefði ég talið fýsilegasta kostinn að við hinkruðum við og flýttum okkur ekki um of, létum alla vega þetta haust líða áður en við hröpuðum að niðurstöðu í þessu máli.