145. löggjafarþing — 144. fundur,  1. sept. 2016.

samningur Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur.

783. mál
[18:49]
Horfa

Frsm. meiri hluta utanrmn. (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F) (andsvar):

Frú forseti. Eins og ég sagði áðan hef ég mikinn skilning á því að hv. þingmaður vilji fara varlega í þessu máli. En staðan er sú eins og fram kom í ræðu minni að okkur skortir ákveðnar landbúnaðarvörur og við þurfum að flytja þær inn. Okkur er að fjölga sem betur fer og við erum að fá fleiri ferðamenn og suma hluti vantar. Það er sjálfsagt á meðan við getum ekki sjálf annað þeirri eftirspurn að við flytjum slík matvæli inn. Þetta snýst náttúrlega líka um að fólk hafi val, að Íslendingar hafi val, hvað fólk vill kaupa. Ef fólk hefur í höndunum kjöt frá Spáni og Íslandi, þá á það að geta metið það hvorn pakkann það vill kaupa.

En þar sem við erum að opna fyrir aukinn innflutning á sumum vörum með þessum samningi þá þurfum við að halda áfram að byggja undir íslenska framleiðslu, auka innlenda framleiðslu þannig að neytandinn hafi þetta val sem ég er að tala um, hann þurfi ekki að kaupa endilega erlendu vöruna ef hann vill frekar kaupa innlenda framleiðslu.

Mig langar líka til að svara því úr fyrra andsvari hvað varðar samspil búvörusamninga sem við ræddum fyrr í dag og greiddum atkvæði um og svo þessa tollasamnings. Já, ég held við þurfum að afgreiða þessi tvö mál samhliða vegna þess að þessar breytingar spila saman eins og þingmaðurinn veit. Þarna eru ólík sjónarmið, þarna eru hagsmunir ólíkra hópa. Ég tel að með því að Alþingi afgreiði þessi mál saman séum við að skapa meiri sátt og meiri breidd (Forseti hringir.) í landbúnaðarkerfinu okkar varðandi val neytenda á markaði sem er sjálfsagt.