145. löggjafarþing — 144. fundur,  1. sept. 2016.

samningur Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur.

783. mál
[18:53]
Horfa

Frsm. meiri hluta utanrmn. (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur fyrir gott andsvar og áhugavert. Eins og ég sagði áðan er lykilatriði með auknum innflutningi að við gerum ekki minni kröfur en áður, hvort sem um er að ræða innlenda eða erlenda framleiðslu. Við verðum að sjálfsögðu að halda áfram að gera gæðakröfur til matvæla sem við ætlum að neyta. Ég nefndi lýðheilsusjónarmið og annað áðan.

Eftirlitið er gott og þarf að vera gott og helst betra en nú er. Eins og hv. þingmaður nefndi þá þarf náttúrlega meiri peninga, við komum alltaf þangað aftur og aftur. Jú, jú, ég hef áhyggjur, en ég horfi á þetta mál sem og önnur mál þannig að þetta sé bara enn eitt verkefnið fyrir okkur sem störfum á Alþingi og förum með fjárlög og erum sífellt að skipta okkur af öllu mögulegu. Mér finnst gott að þingmaðurinn dragi þetta fram og þetta sé skjalfest vegna þess að að sjálfsögðu þurfa auknir fjármunir að fylgja. Við verðum að gera þetta vel og halda góðum gæðum hér og öryggi og tryggja, eins og ég sagði áðan, fyrir hinn almenna neytanda að upprunamerkingar séu skýrar og góðar og það sé ekki eitthvað pínulítið letur og blekkingar í gangi á umbúðum matvæla. Það viljum við ekki.