145. löggjafarþing — 144. fundur,  1. sept. 2016.

samningur Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur.

783. mál
[18:55]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Steinunn Þóra Árnadóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Annað sem einnig var rætt í andsvörum milli hv. þm. Silju Daggar Gunnarsdóttur og hv. þm. Ögmundar Jónassonar áðan var það hvort afgreiða þurfi þessi tvö mál saman, þ.e. búvörulög o.fl. annars vegar og hins vegar þennan tollasamning við Evrópusambandið. Þó svo að auðvitað tengist málin, það eru ýmis atriði sem koma fram í búvörusamningi sem skipta máli einnig inn í þessa umræðu, þannig að ég ætla ekki að neita því að það sé ýmislegt sem tengist þessum tveimur málum, þá er ég algerlega ósammála því að afgreiða þurfi þessi mál saman og tel raunar afar mikilvægt að fresta samþykkt tollasamningsins. Það er einmitt vegna þess að það eru svo óskaplega litlar greiningar sem liggja fyrir á áhrifum samningsins.

Vegna þess að hv. þingmaður nefndi að það komi alltaf að því að við þurfum að ræða um peninga og hvað hlutirnir kosta þá langar mig að spyrja hv. þingmann hvort hún hafi engar áhyggjur af því að í rauninni séum við með þessum samningi að skila inn óútfylltum tékka, því að við vitum hvað við erum að fara að gera með (Forseti hringir.) búvörulögum en svo ætlum við að fara í alls konar mótvægisaðgerðir líka til að bregðast við (Forseti hringir.) samningi sem kemur meira að segja fram í nefndaráliti meiri hluta hv. utanríkismálanefndar (Forseti hringir.) að liggja eiginlega engar almennilegar greiningar fyrir á.