145. löggjafarþing — 144. fundur,  1. sept. 2016.

samningur Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur.

783. mál
[18:57]
Horfa

Frsm. meiri hluta utanrmn. (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka þingmanninum enn og aftur fyrir gott andsvar. Ég ber mikla virðingu fyrir sjónarmiði hennar og skoðunum á því að þessi tvö mál, þ.e. búvörulög og tollasamningur við ESB, þurfi ekki að afgreiðast út saman. Ég er hins vegar á annarri skoðun og tel að svo sé. Ég fór ágætlega yfir það í svari við andsvari hv. þm. Ögmundar Jónassonar áðan. Ég tel að mikilvægt sé að við afgreiðum þessi mál samhliða vegna þess að með því mætum við mjög ólíkum sjónarmiðum sem ríkja um landbúnaðarkerfið okkar, matvælaframleiðslu og annað. Þá náum við vonandi meiri sátt í samfélaginu sem er alltaf jákvætt og betra kerfi en nú er, að mínu mati.

Ég ætla ekki að dæma það hvort greiningar hefðu mátt vera ítarlegri af áhrifum samningsins, það getur vel verið að svo sé. Það kemur samt fram í áliti meiri hlutans, þá vísa ég í töflu um innflutning í álitinu, að áhrifin eru ekki eins mikil eins og sumir hafa viljað vera láta. Það munar þarna mestu um innflutning á osti. Skýringin þar er að það er vegna útflutnings á skyri og svo erum við með þessa sérstöku upprunamerktu osta og það er vöntun á nautakjöti, við framleiðum nóg af nautakjöti sjálf. (Forseti hringir.) Þessi áhrif eru því lítil. Ég svo sem hef ekki séð kostnaðarmat, eins og þingmaðurinn veit, (Forseti hringir.) en ég tel að miðað við þessi litlu áhrif séum við ekki að tala um (Forseti hringir.) brjálæðislega háar upphæðir sem við ráðum ekki við. Ég er því mjög sátt við þetta mál og vona að það verði afgreitt.