145. löggjafarþing — 145. fundur,  5. sept. 2016.

þunn eiginfjármögnun og skattasamningar við álverin.

[15:09]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Það kemur ekki á óvart að hv. þingmaður skuli stinga upp á enn einum skattinum þegar kemur að atvinnulífinu. Menn hafa skrifað bréf til fyrirtækja. Ég vísa t.d. til bréfsins sem Steingrímur J. Sigfússon skrifaði sem fjármálaráðherra til álversins í Straumsvík þar sem því var sérstaklega lofað að slíkur skattur yrði ekki tekinn upp. Það er líka ákvæði að finna í fjárfestingarsamningum þar sem því er lofað að engar slíkar nýjar skattgreiðslur verði leiddar yfir fyrirtækið. (Gripið fram í.) Ég skil því ekki af hverju hv. þingmaður hefur áhyggjur af fjárfestingarsamningnum sem boðar í raun og veru að henni sé slétt sama um það sem standi í þeim vegna þess að hún sé tilbúin til þess að taka upp skatta sem lofað er að taka ekki upp í þeim sömu samningum.

Ég vek athygli á því hér að það er langbest að taka svona umræðu út frá gögnum og einhverjum staðreyndum. Ég spyr til dæmis: Liggur fyrir að þessi fyrirtæki greiði hærri vexti til móðurfélaga sinna en almennt þarf að gera af sambærilegum félögum á markaði? Liggur það fyrir? Ég hef ekki séð þau gögn. Ef svo er þá er hægt að halda því fram (Forseti hringir.) að það væri vandamál að geta ekki breytt samningunum. Ef það liggur ekki fyrir sé ég ekki alveg hvert vandamálið er.