145. löggjafarþing — 145. fundur,  5. sept. 2016.

frumvarp um þunna eiginfjármögnun.

[15:12]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Þær tillögur sem ég hef lagt fyrir þingið eru tillögur sem hafa verið unnar í minni tíð sem fjármálaráðherra. Sá þingmaður sem hér talaði sat í ríkisstjórn í fjögur ár og kom ekki fram með slíkar tillögur. En gott og vel. Við erum sammála um að þörf er fyrir að setja slíkar tillögur. Ég er þeirrar skoðunar að þær eigi að vera almennar reglur sem standast alþjóðlegan samanburð.

Ég tek eftir að mikill áhugi er á því að máta reglurnar við einstök fyrirtæki í landinu. Ég hef ekki látið framkvæma slíka könnun. Ég spyr mig líka hversu langur sá listi fyrirtækja eigi að vera sem ég þarf að kanna sérstaklega fyrir hvert og eitt, hvernig reglurnar kæmu út fyrir hvert og eitt tilfelli. Ég sé engan sérstakan tilgang í því að fara í slíka rannsókn. Við þurfum hins vegar að sjálfsögðu sem stjórnvöld að standa við gerða samninga. Það verður bara að koma í ljós. Mér finnst menn gefa sér um of í umræðunni að þegar kemur að stóriðjufyrirtækjum liggi það með einhverjum hætti fyrir að þar sé verið að sjúga út vexti sem eru langt umfram markaðsvexti. Ég hef bara ekki séð þessi gögn. Ég vildi gjarnan ef einhver sem fullyrðir þetta — ég tek eftir því að Ríkisútvarpið virðist nánast gefa sér að það séu óeðlilega háir vextir þegar þeir eru 60 milljarðar yfir tíu ára tímabil, en mér finnst ekki sjálfgefið að í því liggi einhver staðfesting á því í þeirri fjárhæð einni og sér að vaxtaprósentan sé umfram það sem hægt hefur verið að sækja á hinum almenna markaði. En um það snýst þetta. Um það að menn komist ekki upp með að lána dótturfyrirtækjum sínum á kjörum sem eru langt umfram það sem sama fyrirtæki gæti fengið úti á markaðnum, notað þessi háu kjör til að lágmarka hagnaðinn á Íslandi og koma sér undan tekjuskattsgreiðslum. Ég vil berjast gegn því að menn geti gert þetta. Þess vegna hef ég lagt fram þessar tillögur. Þær eru almennar, þær eru í samræmi við það sem annars staðar hefur verið (Forseti hringir.) gert. En ég á mjög erfitt með að taka umræðuna á grundvelli þess hvernig staðan er í einstökum fyrirtækjum þar sem ég hef ekki verið að skoða þau.