145. löggjafarþing — 145. fundur,  5. sept. 2016.

samskipti Íslands og Tyrklands.

[15:18]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Átökin í Sýrlandi og í nágrenni þess eru fyrir löngu orðin mjög flókin og voru þegar orðin mjög flókin fyrir valdaránstilraunina sem átti sér stað nýlega í Tyrklandi. Þó sýnist manni af öllu sem maður les að það hafi gert að verkum að yfirvöld Tyrklands einblíni núna meira á að afla sér stuðnings við hernaðaraðgerðir sem þau hafa áhuga á að framkvæma. Auðvitað er það þannig að ríki íslams, sem er sunnan við Tyrkland, á sér enga náttúrulega vini sem betur fer enda fullkomlega skelfilegt fyrirbæri. Þarna eru líka á nálægu svæði svokallaðir Kúrdar, á svæði sem oft er kallað Kúrdistan, þjóð sem ekki er viðurkennd í alþjóðasamfélaginu sem sjálfstæð, ekki enn þá og lítur ekki út fyrir að verði í náinni framtíð. Hins vegar hafa Tyrkir löngum verið í miklum deilum við Kúrda vegna sjálfstæðisbaráttu þeirra og er mikill ágreiningur og núningur þar innan lands sem og auðvitað í öðrum ríkjum þarna í nágrenni, svo sem Íran, Írak og Sýrlandi.

Það sem maður heyrir núna er að Tyrkland beiti þessum aðstæðum til þess að berjast gegn Kúrdum undir því yfirskyni að verið sé að berjast gegn ríki íslams. Þetta eru fregnir sem mér þykja að sjálfsögðu algjörlega óásættanlegar eins og ýmislegt fleira þarna niður frá, ef ekki flest. Mig langar til þess að spyrja hæstv. utanríkisráðherra hvernig Ísland nálgist samtöl við Tyrki um þetta málefni og hvort skilaboðin séu skýr, að ekki sé ásættanlegt að baráttan gegn ríki íslams sé notuð sem skálkaskjól fyrir baráttu gegn Kúrdum.