145. löggjafarþing — 145. fundur,  5. sept. 2016.

skattlagning bónusa og arðgreiðslna.

[15:26]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Forseti. Það er erfitt að bregðast við öllum þessum spurningum á tveimur mínútum en ég ætla að gera mitt besta. Ég sagði að mér fyndist þetta hafa yfirbragð sjálftöku vegna þess hvernig þessi fyrirtæki hafa orðið til. Hluthafahópurinn er ekki hluthafahópur sem fjárfesti í þessum félögum heldur endaði hann uppi sem hluthafahópur eftir nauðarsamningagerð þegar félögin höfðu þurft á því að halda að fara dómstólaleiðina því að þau lentu í greiðsluerfiðleikum. Maður hefur á tilfinningunni að það séu mörg þúsund á bak við þessi félög en að það sé ofboðslega þröngur píramídi sem taki ákvörðun um þessa hluti efst í hluthafahópnum. Þar með kemur það yfirbragð sem ég lýsti með þessum hætti.

Mig langar til að vekja athygli á því að það skiptir máli að bónusarnir eru skattlagðir eins og laun, en eftir því hvort fyrirtækin sem þarna eiga undir greiða sérstakan fjársýsluskatt eða ekki geta skattgreiðslur vegna þessara bónusgreiðslna orðið allt að tæpum 59%. Það er nú ekki hægt að gera lítið úr því hvers konar gríðarleg skattlagning er á þessar greiðslur nú þegar samkvæmt lögum. En það fer á endanum eftir því, og ég á eftir að komast til botns í því, hvort þessi félög teljast falla undir sérstaka fjársýsluskattinn.

Varðandi arðgreiðslur annarra fyrirtækja í landinu, hvort sem það eru sjávarútvegsfyrirtæki eða önnur, finnast mér þau sjónarmið sem ég viðraði áðan alls ekki eiga við. Það er auðvitað með allt öðrum hætti. Þau félög eru skattlögð í tvígang: Í fyrsta lagi er óheimilt að greiða út arð nema það sé óráðstafað fé og þar hafi verið hagnaður á fyrri árum; sá hagnaður hefur verið skattlagður með tekjuskatti og síðan er arðgreiðslan skattlögð með fjármagnstekjuskattinum eins og hér var nefnt. Það verður að hafa í huga að endanlegur skattur vegna hagnaðar er í raun og veru (Forseti hringir.) miklu meiri og það er allt annað yfirbragð á arðgreiðslum (Forseti hringir.) vegna hagnaðar í atvinnustarfsemi (Forseti hringir.) en því sem við ræðum hér um.