145. löggjafarþing — 145. fundur,  5. sept. 2016.

skattlagning bónusa og arðgreiðslna.

[15:29]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég leyfi mér að stilla þessu tvennu upp saman því að ég er sammála því að þessar bónusgreiðslur eru algerlega úr takti við annað. En þegar við skoðum háu fjárhæðirnar í íslensku samfélagi, þetta ríka eitt prósent, það fáa fólk sem hefur það svo langsamlega best — þar koma peningarnir inn. Þetta eru fyrirtækjaeigendur sem gengur vel og greiða sér mikinn arð í eigin vasa. Það er gott ef fyrirtækjum gengur vel en ég vil sjá þann pening fara aftur í fjárfestingu innan fyrirtækisins svo það geti stækkað og verið þjóðhagslega hagkvæmt, sú hringrás öll.

Hæstv. fjármálaráðherra skautar algerlega fram hjá spurningu minni. Ég spurði um tvískinnunginn. Auðvitað er það sjálftaka að greiða sér arð, alveg eins og hitt er sjálftaka. Finnst honum í lagi (Forseti hringir.) að bjóða upp á svo lága skatta á þessar gríðarlegu upphæðir?