145. löggjafarþing — 145. fundur,  5. sept. 2016.

skattlagning bónusa og arðgreiðslna.

[15:30]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég get ekki fallist á að það sé sjálftaka þegar menn greiða sér arð í atvinnustarfsemi. Það er bara ekki í nokkru samhengi við þá umræðu sem verið er að vísa til og tengist bónussamningunum sem ég hef farið yfir hér. Því er haldið fram að við höfum lækkað veiðigjöldin svo mjög að það muni milljörðum og að mismunurinn hafi verið greiddur út í arð. Það er alrangt. Þessi ríkisstjórn hefur tekið á annan tug ef ekki á þriðja tug milljarða í veiðigjöld umfram það sem gert var á síðasta kjörtímabili.

Þó að reglunum hafi verið breytt hefur engin ríkisstjórn nokkru sinni tekið jafn há veiðigjöld innheimt í ríkiskassann og við höfum gert á þessu kjörtímabili (BjÓ: Þetta er bull.) Ég ætla að senda hv. þingmanni sem kallar hér fram í yfirlit yfir þessar greiðslur þannig að hún geti dregið til baka þau orð sín sem hún kallar hér fram í, að þetta sé bull, því að það er staðreynd.

Að öðru leyti verð ég að segja eins og er að mér finnst skattlagningin eðlileg. Og það er líka rangt sem hér er sagt að (Forseti hringir.) það sé of mikið um að menn taki út arð og setji ekki aftur inn í starfsemina. Ég vek t.d. athygli á því hvað (Forseti hringir.) stærsta fyrirtækið á Íslandi í sjávarútvegi, Samherji, hefur gert í því efni. (Forseti hringir.) Ég hvet menn til að líta eftir því hversu ofboðslega hátt hlutfall hagnaðarins (Forseti hringir.) hefur farið aftur í innri fjárfestingu í því félagi og ekki verið greitt út sem arður.