145. löggjafarþing — 145. fundur,  5. sept. 2016.

veiðigjöld og fjármögnun rannsókna í sjávarútvegi.

[15:38]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Það hefur löngu komið fram að þessi fjárfestingaráætlun var orðin tóm. Þetta var marklaust plagg. Það vita allir. Mig langar hins vegar að ítreka það sem ég sagði áðan um þetta auðlindagjald sem Samfylkingin hefur talað fyrir mjög lengi, hún fékk meira að segja fjögur ár til að reyna að hrinda því í framkvæmd en gat það ekki. Það er svo auðvelt að láta þessa peninga renna til byggðanna að ríkisstjórn hv. þingmanns hafði fjögur ár til að gera það en gat það ekki. Það er svo rosalega einfalt að gera þetta. Við eigum að hætta að tala um þetta með þessum hætti og fara að byggja undir þessa atvinnugrein eins og aðrar, leyfa henni að vaxa og dafna. Hún borgar eins og aðrar atvinnugreinar sín gjöld og skatta til landsins. Við getum hins vegar farið yfir það hvort við eigum að dreifa þessu öðruvísi með einhverjum hætti öðruvísi. Það var það sem ég nefndi áðan að Framsóknarflokkurinn hefði talað um. Framsóknarmenn hafa barist fyrir því að auðlindagjaldið renni með einhverjum hætti aftur til byggðanna, inn í atvinnugreinina og í ríkissjóð.