145. löggjafarþing — 145. fundur,  5. sept. 2016.

sala á eignum sem komu til frá slitabúum föllnu bankanna.

[15:44]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að hafa farið ágætlega yfir tilurð hlutafélagsins Lindarhvoll ehf. sem hefur opnað heimasíðuna lindarhvolleignir.is. Þar höfum við birt öll gögn sem varða tilurð félagsins, hvernig því er stjórnað, samninga sem gerðir hafa verið við félagið og aðrar upplýsingar, þar með talið þá uppgjörsskýrslu sem var afhent þinginu í samræmi við lög fyrir skemmstu. Þar má einnig finna yfirlit yfir það hvernig hefur spilast úr eignasafni félagsins á undanförnum mánuðum. Ég ætla ekki að taka langan tíma í að rekja þessi formlegheit öll en það sem má finna á heimasíðu félagsins eru starfsreglur stjórnarinnar, stjórnskipulagið, reglur um umsýslu, fullnustu og sölu eigna, reglur og viðmið vegna lánamála og siðareglur auk þeirrar skýrslu og annarra upplýsinga sem ég hef hér vikið að.

Ég tel að félagið hafi í einu og öllu starfað í samræmi við þær kröfur sem gerðar eru bæði í lögum og þeim samningum sem gerðir voru við félagið af hálfu fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Mér finnst hafa vel tekist til við framkvæmd sölumeðferðar á ólíkum eignum og verð að segja að það var aldrei ætlun mín að hafa mjög sterka skoðun á því, umfram það sem birtist í samningum við félagið, hvernig félagið átti nákvæmlega að ná þeim markmiðum sem því eru sett þar. Ég ætlaði aldrei að fara að segja félaginu fyrir um útboðsfresti. Ég ætlaði heldur ekki að fara að segja félaginu fyrir um það hvernig það ætti að gera upp á milli bjóðenda þegar var verið að leita eftir hagstæðasta tilboði í milligöngu. Við höfum falið félaginu að sjá um þessi mál en við höfum sett því mjög skýran ramma.

Hérna er í raun og veru velt upp þeirri spurningu hvort einhver vafi sé á því hvort félagið hafi fengið rétt verð í einu ákveðnu tilviki. Við höfum markaðsverðið og við höfum söluverðið og ég sé ekki að mikill munur sé þar á milli þannig mér sýnist á öllu eftir að hafa skoðað þetta bara út frá þessum einstöku tilteknu forsendum að það hafi fengist ágætisverð. Menn velta því hér upp: Ja, nú eru margir að spá því að fasteignir munu hækka mikið í framtíðinni. Þá segi ég: Er hægt að finna betri tíma til að selja en einmitt þá? Hvernig væri að selja ef menn væru að spá því að það væri lækkun fram undan á fasteignamarkaði? Ætli það væri gott að selja þá? Ég held að flestir virkir á markaði mundu segja: Nei, það væri frekar óheppilegur tími. Almennt gera menn ráð fyrir því að það endurspeglist í verðinu ef horfur eru góðar á þeim markaði sem menn selja á, þannig að ég held að það hafi bara spilað með félaginu.

Það sem við höfum fengið eftir þessa fáu mánuði sem liðnir eru frá því að tekið var við stöðugleikaframlaginu og þessi hluti ratar inn í félagið eru greiðslur inn á stöðugleikareikning ríkissjóðs upp á 57 milljarða kr. Við höfum fengið 57 milljarða inn á stöðugleikareikning ríkissjóðs og það er í samræmi við áætlun Lindarhvols, þær eignir sem eru skráðar hafa verið seldar á opnum markaði. Við teljum að það sé eðlilegt af félaginu að hafa gert það, sé í samræmi við samningana.

Því var velt upp af málshefjanda hvort ekki hefði mátt tryggja betur aðgengi almennings að sölunni. Þegar við erum með skráða eign þá held ég að við eigum ekki að hafa um of áhyggjur af aðkomu almennings. Það er líka miklu flóknara mál að fara í útboð til almennings, miklu kostnaðarsamara og dýrara. Það er í sjálfu sér tilgangslaust þegar félagið hefur þegar verið skráð og almenningi stendur til boða á hverjum degi að fara inn á markaðinn og fjárfesta í viðkomandi félagi ef menn hafa áhuga á því.

Skráð skuldabréf hafa verið seld í opnu tilboðsferli eins og lesa má í skýrslunni. Síðan eru það þessi óskráðu (Forseti hringir.) hlutabréf sem eru enn í meðferð. Að öðru leyti um starfsemi (Forseti hringir.) félagsins vil ég vísa í skýrsluna sem er ítarleg og mjög skýr.