145. löggjafarþing — 145. fundur,  5. sept. 2016.

sala á eignum sem komu til frá slitabúum föllnu bankanna.

[15:54]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér meðferð stöðugleikaeigna. Ég þakka hv. þm. Katrínu Jakobsdóttir fyrir umræðuna, sem er mikilvæg, um sölu á þessum eignum og þá fyrst og fremst það er snýr að upplögðum markmiðum og hvort þau hafi gengið eftir. Auðvitað var lagt upp með að tryggja skýra lagalega umgjörð varðandi umsýslu fjár og eigna sem koma til vegna þessara eigna og þá um leið gagnsæi, jafnræði og trúverðugleika. Ég á sæti í hv. efnahags- og viðskiptanefnd eins og hv. þingmaður. Það var viðmið og einlægur vilji nefndarinnar þegar umrætt lagafrumvarp var til umfjöllunar í nefndinni að búa svo um hnútana að allt yrði upp á borðum, öll ferli gagnsæ, jafnræðis yrði gætt í sölumeðferð og upplýsingar þannig að ekki yrði stöðug tortryggni uppi um slík viðskipti. Vissulega er það mikilvægur þáttur í endurreisn hagkerfisins að rétta stöðu þjóðarbúsins, en ekki síður að skapa traust á gjörðum stjórnvalda í meðhöndlun og meðferð eigna og er fyllsta ástæða til þess.

En við hvað á að miða þegar jafnræði, gagnsæi, traust, hagkvæmni og hlutlægni eru metin í slíku ferli? Ég hlýddi hér á viðbrögð hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra og tek undir með honum varðandi kjarna málsins, þ.e. hvað varðar formið. Þau viðmið komu bæði fram í nefndaráliti hv. efnahags- og viðskiptanefndar og í breytingum við frumvarpið í þá veru. Hér er um að ræða sömu sjónarmið og vert er að geta hér og finna má í 45. gr. samþykktra laga um opinber fjármál varðandi almenna ráðstöfun ríkisins á eignum.

Meiri hluti hv. efnahags- og viðskiptanefndar hnykkir og á því í áliti sínu að allt ferlið við sölu og ráðstöfun á eignum sé skýrt og ljóst og ávallt liggi fyrir á hverju einstakar ákvarðanir séu byggðar og (Forseti hringir.) jafnframt tryggt að nefndir þingsins séu upplýstar reglulega um framgang þessara mála.