145. löggjafarþing — 145. fundur,  5. sept. 2016.

sala á eignum sem komu til frá slitabúum föllnu bankanna.

[15:57]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Við búum í samfélagi þar sem tortryggni einkennir viðhorf til fjármálamarkaðarins, og einkavæðingu ríkiseigna vegna þess sem á undan er gengið í íslenskri sögu þegar kemur að slíkum málum. Þess vegna langar mig að nýta tækifærið og fagna því að í svari hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra minnist hann á vefsíðu, sem er kannski ekki öllum augljóst hvernig á að stafa, þ.e. lindarhvoll, lindarhvolleignir.is, þar sem finna má ógrynni af upplýsingum um þetta allt saman. Það er til fyrirmyndar. Það eru vinnubrögð sem við eigum að temja okkur og mér þykir gaman að sjá þegar fram koma umræður frá fólki sem hefur kynnt sér þetta efni mun betur efnislega en ég get gert eða mun geta gert í náinni framtíð, og að það spyrji spurninga.

Spurt er um gegnsæi. Það er veitt. Mér þykir það til fyrirmyndar og þótt alltaf sé hægt að ganga lengra og kalla eftir meira gegnsæi, sem er algerlega sjálfsagt, er sannarlega tilefni til að fagna því þegar settur er fram mjög einfaldur vefur þar sem hægt er að fletta upp siðareglum og stofngögnum og öllu því sem menn vilja skoða í þessu samhengi. Auðvitað er hægt að vekja upp áhyggjur af einhverju eins og óskráðum eignum. Það er sjálfsagt að ræða það. En mér þykir alveg ástæða til að nefna að það er ólíkt því sem tíðkast hefur í gegnum tíðina. Fólk hefur ekki upplifað að svona ferli séu mjög gegnsæ og þess vegna hvet ég núverandi stjórnvöld sem og stjórnvöld framtíðarinnar til þess að líta á þennan vef sem framúrskarandi dæmi um þar sem gegnsæi er veitt. Þar gefst öllum færi á að skoða gögnin beint og taka betur þátt í umræðunni.