145. löggjafarþing — 145. fundur,  5. sept. 2016.

sala á eignum sem komu til frá slitabúum föllnu bankanna.

[16:01]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir að setja þetta mál á dagskrá. Það er auðvitað sjálfsagt og eðlilegt að menn fylgist með framvindu mála þegar jafn háar fjárhæðir og hérna liggja undir. Ég fagna líka greinargóðri útskýringu hæstv. fjármálaráðherra á þessu máli. Ég heyri ekki betur en að menn séu nokkuð sáttir við það ferli sem þessi mál eru komin í. Ég tek undir fagnaðarlætin sem hafa verið flutt úr ræðustól yfir heimasíðu Lindarhvols og tel það einmitt alveg til fyrirmyndar.

Fyrirtæki sem fær það verkefni að selja eignir — það er einkum tvennt sem gæti vafist fyrir mönnum og það er samræma það markmið að selja þessar eignir með sem hagkvæmustum hætti, þ.e. fá sem hæst verð fyrir, og hitt markmiðið sem er að leysa úr þessum málum hratt og örugglega. Þetta getur stundum stangast á, þau markmið, tímafaktorinn í þessu og verðið, en þar verða menn að vega og meta í hvert sinn. Það er líka ákveðinn vandi sem blasir við þeim sem þurfa að selja svona miklar eignir á skömmum tíma, á einhverjum tímapunkti lenda menn mögulega í samkeppni við sjálfa sig um eignir, þ.e. í markaðsstarfinu. Hér er auðvitað takmarkaður hópur kaupenda og þegar menn nefna og leggja mikla áherslu á gagnsætt ferli við sölu þessara eigna mega menn heldur ekki gleyma því að það þarf líka að vera ákveðið eftirlit með kaupum. Ég nefni í því sambandi sérstaklega lífeyrissjóði og annað sem ég held að almenningur, sem er hagsmunaaðilar þar, þurfi að fylgjast grannt með, (Forseti hringir.) hvort menn séu ekki að gera ágætiskaup líka á þeim vængnum. Að öðru leyti fagna ég að þessi mál séu rædd hér og vona að þau verði tekin fyrir aftur einhvern tímann síðar.