145. löggjafarþing — 145. fundur,  5. sept. 2016.

sala á eignum sem komu til frá slitabúum föllnu bankanna.

[16:10]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Mig langar að byrja á því að þakka málshefjanda fyrir að taka upp þetta mál. Það er mjög mikilvægt að við ræðum hvernig einkavæðingu eða sölu á ríkishlutum í kjölfar bankahrunsins skuli háttað. Það er þannig að brennt barn forðast eldinn og því ekki nema von að íslenskir kjósendur og almenningur almennt finni fyrir svolitlu vantrausti í garð ríkisstjórnarinnar eða í garð alls þessa einkavæðingarferlis. Sama sagan hefur endurtekið sig allt of oft. Við nennum hreinlega ekki að horfa upp á sömu atburðarásina gerast trekk í trekk, eins og sást t.d. með Borgun. Ég held að við höfum lært af mistökunum.

Það er ekki nóg að vera bara með einhverja góða lagalega umgjörð þegar við tölum um sölu ríkiseigna. Það þarf líka að vera sterkur og hlutlaus eftirlitsaðili sem getur séð til þess að farið sé rétt að í öllu. Mig langar til að taka undir það sem fyrri hv. þingmenn hafa minnst á, að pólitískur vilji ráðamanna má ekki ráða för hversu hratt er einkavætt. Það er eitthvað sem þarf að vera alveg kýrskýrt. Hraði er ekki það sem við þurfum. Við þurfum að mynda traust og til þess að mynda traust þurfum við oft tíma. Það er ekki nema von að fólk finni fyrir ónotum þegar því finnst eins og verið sé að hlutast til með miklu hraði, í einhverju bixi, um sameiginlegar eignir. Þá er náttúrlega spurning hvernig við byggjum upp traust. Ég held að við þurfum að gera það aðeins hægar en bara fyrir áramót.