145. löggjafarþing — 145. fundur,  5. sept. 2016.

skattafsláttur af ferðakostnaði til og frá vinnu.

831. mál
[16:17]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Elsa Lára Arnardóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég ætla að ræða við hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra um þingsályktunartillögu sem ég lagði fram í þinginu og fyrirspurn sem unnin var út frá tillögunni. Tillagan sem fyrirspurnin er unnin út frá snýst um að Alþingi álykti að fela fjármála- og efnahagsráðherra að undirbúa að leggja fram á Alþingi frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003, með síðari breytingum, sem feli í sér heimild ráðherra til að útfæra og setja reglur um að þeim skattskyldu mönnum sem greiða þurfa háan ferðakostnað til og frá vinnu óháð ferðamáta innan tiltekinna og skilgreindra atvinnusvæða innan lands verði veittur afsláttur af tekjuskatti. Í framhaldinu útfæri ráðherra og setji slíkar reglur.

Þingsályktunartillagan sem fyrirspurnin er unnin út frá tók örlitlum breytingum frá fyrri framlagningu, mig minnir að hún hafi verið lögð fram tvisvar eða þrisvar áður en hún var lögð fram í haust. Í umsögnum í fyrra ferli komu fram athugasemdir um að tillagan sneri eingöngu að þeim sem færu á bílum þannig að við teygðum okkur í að þetta næði jafnframt yfir almenningssamgöngur.

Þróunin sem verið hefur undanfarin ár er sú að atvinnusvæði hafi stækkað og þar með fari margir lengri ferðir til og frá vinnu. Sú þróun er jákvæð og styrkir byggðir landsins, en vandamál fylgja einnig stækkandi atvinnusvæðum og ferðast fólk langar leiðir í og úr vinnu. Það getur verið mjög kostnaðarsamt. Nauðsynlegt er að unnið verði að því að auka vægi almenningssamgangna á hverju atvinnusvæði fyrir sig, en þar er víða pottur brotinn. Ljóst er að á sumum atvinnusvæðum er engum almenningssamgöngum fyrir að fara og þarf fólk samt sem áður að fara langan veg í og úr vinnu. Það var því tillaga flutningsmanna að ráðherra verði falið að undirbúa að leggja fram á Alþingi frumvarp til aga um breytingar á tekjuskattslögum sem feli í sér heimild ráðherra til að setja reglur um að þeim skattskyldu mönnum sem greiða þurfa háan kostnað til og frá vinnu óháð ferðamáta innan tiltekinna skilgreindra atvinnusvæða verði veittur afsláttur af tekjuskatti. Fái frumvarpið lagagildi útfæri ráðherra og setji slíkar reglur, eins og áður sagði.

Fyrirspurn mín er eftirfarandi: Hefur hæstv. ráðherra í hyggju aðgerð sem þessa eða aðra sambærilega sem komið gæti til móts við fólk sem greiðir háan ferðakostnað til og frá vinnu?

Fram kom í umsögnum þegar málið fór til efnahags- og viðskiptanefndar að það var aðallega ríkisskattstjóri sem setti út á eða var mótfallinn því að þetta næði fram að ganga því að það mundi flækja skattkerfið. En á þeirri tölvu- og tækniöld sem við lifum á núna hlýtur að vera til lausn á þeim málum til að einfalda það á einhvern hátt til að koma á móts við þennan hóp og styrkja þannig dreifð atvinnusvæði í landinu.