145. löggjafarþing — 145. fundur,  5. sept. 2016.

endurnýjun ökuskírteina eftir 65 ára aldur.

825. mál
[16:31]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Valgerður Bjarnadóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Mig langar til að spyrja hv. innanríkisráðherra um endurnýjun ökuskírteina fyrir eldra fólk. Mér fannst kostulegt að sjá í reglugerð um endurnýjun ökuskírteina eða útgáfu ökuskírteina fyrir fólk sem hefur náð 65 ára aldri að gerð var krafa um læknisvottorð en fram að þeim aldri nægir heilbrigðisyfirlýsing eins og segir í reglugerðinni. Það þýðir þá væntanlega að fólk lýsi því yfir að ekkert hrjái það sem hindri að það geti ekið bíl. Ég skil ekki almennilega hvers vegna þetta aldursviðmið er sett. Við eftirgrennslan sá ég að í Danmörku er þessi krafa gerð við 75 ára aldur. Mig langar til að spyrja ráðherrann hvort einhverjar vísindalegar ástæður liggi að baki þessu aldursmarki eða hvort einhver hafi einfaldlega rétt puttann upp í loft og sagt: Já, það er sniðugt að hafa þetta við 65 ára aldur.

Hér á landi þurfa allir að endurnýja ökuskírteini sín við 70 ára aldur og fá þá lengst framlengt í fimm ár. Í Danmörku er þessi þröskuldur settur við 75 ára aldur. Þegar fólk er 75 ára fær það aftur framlengt ökuskírteini í fimm ár eða til áttræðs. Eftir það þarf að endurnýja ökuskírteinið einu sinni á ári. Og af því að ég hef tekið mið af Danmörku hér að framan þá gildir það sama þar, eftir áttræðisaldur þarf að endurnýja ökuskírteini árlega.

Það er svolítið umstang að framlengja ökuskírteini og eitt ár er fljótt að líða, ekki síst þegar maður er kominn á virðulegan aldur, segi ég sem ekki er fædd í gær þótt ég eigi nú tæpan einn og hálfan áratug í áttrætt. Og það kostar, jafnvel þó að fólk sé komið á afsláttarkjör hjá heilsugæslunni en þar þarf að ná í heilbrigðisvottorðið, og hjá sýslumanninum sem gefur út ökuskírteinið. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherrann hvort hún hafi eitthvað velt því fyrir sér að breyta þessari reglugerð. Hafi hún ekki gert það spyr ég hvort henni finnist ekki ástæða til að gera það, ekki síst í ljósi þess að fólk lifir sífellt lengur og heldur sífellt betri heilsu fram eftir öllum aldri.