145. löggjafarþing — 145. fundur,  5. sept. 2016.

endurnýjun ökuskírteina eftir 65 ára aldur.

825. mál
[16:34]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa spurningu sem er í tveimur liðum. Í fyrsta lagi: Hvers vegna er skrifleg heilbrigðisyfirlýsing umsækjenda um endurnýjun ökuskírteinis ekki tekin gild sé hann orðinn 65 ára, samanber h-lið 2. mgr. 3. gr. reglugerðar um ökuskírteini? Því er til að svara að sú regla sem vísað er til í fyrirspurninni hefur verið í gildi frá 1997. Fram til 1997 var í gildi mun strangari regla en þá þurfti umsækjandi um endurnýjun að framvísa læknisvottorði óháð aldri. Við endurskoðun reglna um ökuskírteini og samræmingu við reglur innan EES-svæðisins var sú ákvörðun hins vegar tekin að í stað læknisvottorðs mætti styðjast við yfirlýsingu umsækjanda um eigið heilbrigði. Breytingin sneri aðeins að fólki yngra en 65 ára sem óskaði eftir framlengingu á hefðbundnum ökuréttindum. Eftir sem áður þurfa einstaklingar 65 ára og eldri að leggja fram læknisvottorð og allir þeir sem óska eftir endurnýjun á auknum ökuréttindum. Ákvörðunin var tekin í sparnaðarskyni og á þeim tíma að fyrirmynd Dana. Þá var jafnframt horft til framkvæmdar í öðrum EES-ríkjum þar sem sami háttur var hafður á.

Í öðru lagi er spurt hvort ráðherra hafi hugað að því hvort ástæða sé til þess að endurskoða ákvæði um endurnýjun ökuskírteinis við 65 ára aldur. Þá er það svo að reglum um endurnýjun ökuskírteina var breytt á síðasta ári. Áður gilti að sá sem endurnýjaði ökuskírteinið fyrir 70 ára aldur fékk ekki framlengingu nema til 70 ára aldurs. Núgildandi reglur kveða á um að endurnýjun sé ætíð veitt til fimm ára þegar til endurnýjunar kemur, frá 65 ára aldri og þar til 70 ára aldri er náð. Eftir það styttist endurnýjunartíminn í áföngum.

Við endurskoðunina var ekki gerð breyting á þeirri kröfu sem fyrirspurnin lýtur að, þ.e. um að framvísa verði læknisvottorði eftir 65 ára aldur þegar óskað er eftir framlengingu á hefðbundnum ökuréttindum. Ákvæði sem þessi þurfa jafnan að taka mið af aðstæðum í samfélaginu á hverjum tíma og grundvallast á sjónarmiðum um öryggi í umferðinni. Það er hins vegar í sjálfu sér ekkert sem mælir gegn því að kanna hvort ástæða sé til að hækka aldursviðmiðið. Ég tek undir það sem fram kom hjá hv. fyrirspyrjanda að við erum svolítið í öðrum veruleika núna en fyrr á tíð þegar grundvöllurinn að þessum reglum var settur. Mér finnst að það eigi að skoða hvernig reynslan hefur verið hérlendis í samanburði við önnur lönd. Það mætti t.d. skoða hvort ekki sé eðlilegt að miða við 70 eða 75 ára aldur. Mér finnst reyndar alveg eðlilegt að skoða 75 ára aldur þegar krafist er læknisvottorðs við endurnýjun ökuskírteinis. Við sjáum að það er í samræmi við þær reglur sem við horfum á í Danmörku og Noregi þar sem þessi aldursmörk voru mjög nýlega hækkuð í 75 ár.

Ég verð að svara því þannig að það er ekkert núna í vinnslu í ráðuneytinu sem lýtur að þessu máli. Hins vegar finnst mér full rök til þess að það verði skoðað. Ég held að við séum að horfa upp á mjög ólíkan veruleika í þessum efnum eins og svo mörgum öðrum þegar kemur að þeim sem eru komnir á tiltekinn aldur, bæði í þátttöku í atvinnulífi, í þjóðfélaginu og eins að geta komist ferða sinna án þess að þurfa að fara stöðugt með heilbrigðisvottorð vegna endurnýjunar ökuskírteinis. Mér finnst því full ástæða til að skoða þetta.