145. löggjafarþing — 145. fundur,  5. sept. 2016.

endurnýjun ökuskírteina eftir 65 ára aldur.

825. mál
[16:38]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Valgerður Bjarnadóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég fagna því sem hæstv. ráðherra segir hér. Hún segir að reglan um 65 árin hafi verið sett 1997. Það eru 19 ár síðan. Það er talsverður tími. Mér finnst endilega að eigi að breyta mörkunum. Já, þeim var breytt í fyrra og eitthvað gert meira til hagræðis árið 2014 en það eru kannski einmitt atriði af því tagi sem mætti skoða annað hvert ár eða ég veit ekki hvað. Ég vil sérstaklega beina þessu til ráðherrans. Nú hefur hennar flokkur mikið talað um reglubyrði, að í fyrirtækjum sé allt of mikið af reglum og allt of mikið af eftirliti. Ég er ekki að öllu leyti sammála því en ég tel að reglur eigi að vera einfaldar. Mér finnst ekki síst að það eigi að auðvelda venjulegu fólki lífið og ekki láta það þurfa að standa í óþarfa endurnýjunum og taka tillit til þess að lífið hefur breyst. Ég fagna því að ráðherranum finnst umhugsunarvert að skoða það. Ég vildi líka beina til hennar hvort ekki sé eðlilegt að huga að því þegar fólk er orðið áttrætt hvort það mætti ekki vera eftir heilsufari hvers og eins hvort fólk geti fengið ökuskírteini eða læknisvottorð í fimm ár eða tvö ár. Þetta er náttúrlega heilmikið umstang og fer mest í taugarnar á fullfrísku fólki.