145. löggjafarþing — 145. fundur,  5. sept. 2016.

endurbætur á Vesturlandsvegi.

830. mál
[16:41]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Elsa Lára Arnardóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég ætla að eiga umræðu við hæstv. innanríkisráðherra um þingsályktunartillögu sem ég lagði fram í þinginu. Hún hefur ekki komist á dagskrá og ég vann því fyrirspurn upp úr tillögunni. Tillagan sem þessi fyrirspurn er unnin út frá snýst um að Alþingi álykti að fela innanríkisráðherra að hefja viðræður við Reykjavíkurborg, Mosfellsbæ, sveitarfélög á Vesturlandi, Vegagerðina, samgönguráð og aðra hlutaðeigandi aðila um nauðsynlegar vegabætur á Vesturlandsvegi. Í viðræðum við framangreinda aðila verði stefnt að sameiginlegu átaki og áætlanagerð varðandi framkvæmdir á næstu árum við Vesturlandsveg, um Kjalarnes, fyrirhugaða Sundabraut og hvernig bregðast skuli við vaxandi umferð í Hvalfjarðargöngum. Í framhaldi af viðræðum aðila verði lögð fram tímasett áætlun um framkvæmdir og fjármögnun þessara verkefna.

Á síðustu árum hefur verið unnið að endurbótum á Reykjanesbraut og Suðurlandsvegi og hafa þær framkvæmdir aukið verulega öryggi vegfarenda. Framkvæmdir við Vesturlandsveg hafa einskorðast við þann hluta vegarins sem liggur um Mosfellsbæ. Á hverju degi fara um 6.000 bílar um Vesturlandsveg og fer umferðin vaxandi. Um 2.000 ökutæki fara daglega til og frá Akranesi og nágrannasveitarfélögunum en í þeim bifreiðum er fólk sem sækir atvinnu og skóla utan sveitarfélaganna til höfuðborgarinnar. Um langt skeið hefur verið rætt um Sundabraut en ekkert orðið af framkvæmdum við þá samgöngubót. Þá hefur verið kallað eftir vegabótum á Kjalarnesi enda umferð þar mikil en engar verulegar endurbætur hafa átt sér stað á veginum á síðustu áratugum. Þá hefur verið bent á vaxandi umferð um Hvalfjarðargöng og reglulega kemur upp umræða um öryggi vegfarenda þar í ljósi aukinnar umferðar. Markmið tillögunnar, sem lögð var fram, er að vegna umferðaröryggis verði gerð tímasett áætlun um nauðsynlegar vegaframkvæmdir og fjármögnun á Vesturlandsvegi, frá Sæbraut í suðri að norðurströnd Hvalfjarðar. Því er mikilvægt að innanríkisráðherra taki upp þær viðræður sem ég fjallaði um hér að framan.

Mig langar því að spyrja hæstv. innanríkisráðherra hvort núna standi yfir viðræður við hlutaðeigandi aðila um sameiginlegt átak vegna vegabóta á Vesturlandsvegi og framkvæmdir á Kjalarnesi vegna tengingar við fyrirhugaða Sundabraut og hvernig verði brugðist við aukinni umferð í Hvalfjarðargöngum. Ef svo er, hvenær er áætlað að viðræðunum ljúki. Ef ekki, er ætlunin að hefja slíkar viðræður? Og einnig langar mig að spyrja hæstv. innanríkisráðherra hvort unnið sé að tímasettri áætlun um framkvæmd og fjármögnun framangreindra verkefna.