145. löggjafarþing — 145. fundur,  5. sept. 2016.

netbrotadeild lögreglunnar.

828. mál
[17:04]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Við höfum ekki haft uppi nein áform um að leggja fram frumvarp um þetta landslén. Ég skal ekki segja hvað gerist á næsta kjörtímabili, en a.m.k. hefur ekki verið sett af stað nein sérstök vinna um þetta í minni ráðherratíð í innanríkisráðuneytinu.

Ég tek síðan undir það sem hv. þingmaður sagði um menntun og þekkingu löggæslumanna og það er kannski ekki síst í því ljósi sem menn munu þurfa aðeins að ræða þessa hluti þegar verið er að tala um brot á netinu. Við þurfum auðvitað að gera okkur grein fyrir því að raunheimar og internetheimar lúta sömu lagareglum. Það er mjög mikilvægt að löggæslan hafi viðunandi þekkingu til þess að takast á við störf sín. Ég held að þær breytingar sem eru að verða núna á menntun lögreglumanna muni skipta mjög miklu máli til framtíðar til að búa þá undir þau störf sem þeir þurfa að sinna. Ég hygg að með því að opna þessa umræðu með þeim hætti sem við erum að gera hér sé líklegt að við náum þeim árangri sem við ætlum okkur án þess að ganga inn á það heilaga svæði sem friðhelgi einkalífsins er.