145. löggjafarþing — 146. fundur,  5. sept. 2016.

framhald og lok þingstarfa.

[17:09]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Þetta stendur þannig af sér að starfsáætlun Alþingis er útrunnin. Hér er búið að boða til kosninga 29. október. Við höfum fengið upplýsingar um það, þingflokksformenn og forustufólk flokkanna í stjórnarandstöðu, að til standi að sýna einhverjar útlínur að starfsáætlun inn í næstu daga. Meðan þetta ástand varir og ekki hefur birst nein slík starfsáætlun koma forustumenn og ráðherrar stjórnarflokkanna nánast í hverjum fréttatíma með ný þingmál, ný mál til að slá sig sjálf til riddara til að bjarga öllum sem eiga um sárt að binda í samfélaginu o.s.frv. af því að þeir ætla einmitt núna að klára einhver slík mál á nokkrum dögum fyrir kosningar. Þetta er hlægileg framkoma við Alþingi og algerlega til skammar. Ég legg áherslu á að forseti styðji Alþingi í því að ýta á að við fáum hér fullnægjandi útlínur að starfi næstu daga (Forseti hringir.) svo við getum lokið þingstörfum og hafið undirbúning að alþingiskosningum.