145. löggjafarþing — 146. fundur,  5. sept. 2016.

framhald og lok þingstarfa.

[17:11]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Já, ég verð að taka undir það með félögum mínum að það er óásættanlegt ástand sem hérna er. Þetta er kannski það sem við höfum verið að ræða, þingmenn stjórnarandstöðunnar, að hér erum við í vinnunni dag eftir dag, höldum uppi þingstörfum, á stundum nefndastörfum líka. En slök mæting er þar sem margur hefur verið í prófkjöri að reyna að vinna sér sæti til að taka þátt á næsta kjörtímabili. Á meðan er ekki verið að sinna því sem hér er inni. En auðvitað er það fyrst og fremst óásættanlegt að daglega birtast ný og stór frumvörp eða þingsályktunartillögur í fjölmiðlum þar sem, eins og kom fram áðan, núverandi ráðherrar ætla að slá sér á brjóst og sýna á kosningaspilin væntanlega. Það á kannski að líta þannig út að við í stjórnarandstöðunni stöndum í vegi fyrir þeim málum. En hér er um að ræða mörg eflaust ágætismál, stór mál eins og almannatryggingamálið sem verður ekki afgreitt á einhverju augnabliki út úr þingi. Það er bara ekki viðeigandi um svo umfangsmikið mál.


Tengd mál