145. löggjafarþing — 146. fundur,  5. sept. 2016.

samningur Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur.

783. mál
[17:14]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um staðfestingu samnings Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur. Þessi samningur var gerður síðastliðið haust. Þá var strax fjallað um hann í Bændablaðinu undir fyrirsögninni „Reiðarslag og nær öruggt talið að margir þurfi að bregða búi“. Þetta var forsíða Bændablaðsins í september 2015 rétt eftir að upplýst varð um þennan samning. Þar er vísað í viðtöl við ýmsa forsvarsmenn bænda, bæði úr kjúklingaræktinni, svínakjötsframleiðslu og einnig þá sem hafa nautakjötsframleiðslu á sinni könnu og síðan talsmenn Bændasamtakanna almennt. Meðal annars er vitnað í Jón Magnús Jónsson, alifuglabónda að Reykjum og varaformann Félags kjúklingabænda, en hann segir, með leyfi forseta:

„Hugmyndin um aukna niðurfellingu á tollum af innfluttu kjúklingakjöti er hreint reiðarslag fyrir framleiðendur kjúklingakjöts á Íslandi. […] Tollar á magn umfram þessi þúsund tonn er föst krónutala og ég hef ekki heyrt neitt um að hún eigi að breytast umfram það sem hún er í dag. Gangi þetta eftir er ég hræddur um að framleiðendur verði alvarlega að hugsa sinn gang og jafnvel pakka saman og hætta starfsemi.“

Áfram segir í þessari frétt Bændablaðsins frá 24. september í fyrra:

„Samningar á milli Íslands og Evrópusambandsins um tollaniðurfellingar á landbúnaðarvörum kom íslenskum bændum og flestum öðrum mjög á óvart. Á sama tíma hafa forsvarsmenn innflutningsverslunarinnar fagnað tíðindunum, en fjölmargt í þessum samningum vekur samt furðu.“

Svo er vísað í það síðar í fréttinni.

Ég tek hér aftur upp úr þessari forsíðufrétt, með leyfi forseta:

„Þetta eru alvarleg tíðindi fyrir þær greinar og ég tel að stjórnvöld hafi vanrækt að meta áhrif samningsins til fulls.“

Hér var verið að vísa í kjúklingaræktina og svínakjötsframleiðsluna. Ég held áfram:

„„Sama gildir að mörgu leyti um nautakjötsframleiðsluna. Ég taldi að það væri vilji stjórnvalda að efla þá grein en ekki flytja hana að enn stærri hluta til útlanda,“ segir Sindri Sigurgeirsson, formaður BÍ. Hann vekur athygli á því að stjórnvöld tilkynni um nýjan samning um tollamál sem stóð til að ræða um í viðræðum um nýja búvörusamninga.“

Þetta var reyndar nokkuð sem við ræddum fyrir helgina þegar samningurinn var til umræðu á fimmtudag eða föstudag. Þá beindum við nokkrir stjórnarandstæðingar þeirri spurningu til talsmanna ríkisstjórnarinnar hvort það væri órjúfanlegt samhengi á milli búvörusamninganna annars vegar og þessara tollasamninga hins vegar. Við fengum engin skýr svör um það. Það sem við getum okkur hins vegar til um er að þarna hafi átt sér stað einhver hrossakaup milli Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins. Sjálfstæðisflokkurinn hafi lagt áherslu á að fá þennan tollalækkunarsamning í gegn en Framsóknarflokkurinn hafi verið með sínar áherslur á búvörusamningnum.

Ég verð að segja, hæstv. forseti, að svona eiga þessi mál náttúrlega ekki að ganga fyrir sig. Það á að meta hvorn samninginn um sig á eigin forsendum og við eigum að ræða þá á eigin forsendum. Mín tillaga er, og áhersla okkar í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði hefur verið sú við þessar umræður, að þessu máli eigi að skjóta á frest. Staðfestingu þessa samkomulags eigi að skjóta á frest. Þó að málið hafi að sönnu fengið nokkra umræðu í sumar og það sé að því leyti skömminni skárra en að hraða málinu gegnum þingið síðastliðið vor eins og til stóð að gera, þá á enn eftir að rannsaka ýmsa þætti málsins áður en það verður til lykta leitt. Á þetta vil ég leggja áherslu í upphafi míns máls.

Síðan um efni málsins. Það eru tilteknir þættir sem við hljótum að horfa til þegar við hugum að landbúnaðarmálunum. Ég er nú búinn að týna einhverjum gögnum sem ég hafði í höndunum áðan en það ætti ekki að koma að sök, ég held að ég kunni nokkurn veginn það sem ég vildi koma á framfæri. Það eru nokkrir meginþættir sem við hljótum að horfa til þegar við hugum að lagaumgjörð og tollaumgjörð landbúnaðarframleiðslunnar, bæði hvað varðar skipulag framleiðslunnar innan lands og viðskipti með landbúnaðarvörur innan lands og út yfir landsteinana. Hvað er það sem við horfum þá fyrst og fremst til? Jú, við viljum hafa heilnæma matvöru á boðstólum fyrir landsmenn. Þetta er kannski boðorð númer eitt, að búa til kerfi sem tryggir heilnæma matvöru á boðstólum. Það er ekkert gefið í þeim efnum. Ef við förum víða um heiminn þá er slík vara ekki á boðstólum. Það er leitun á landi á gervöllu byggðu bóli sem býður upp á heilnæmari matvöru en Íslendingar gera. Minni sýklalyf er að finna í kjöti sem hér er í verslunum en nokkurs staðar annars staðar sem mér er alla vega kunnugt um. Þetta hefði ég talið að væri auðlind í sjálfu sér.

Þá hafa komið hér margir og tekið undir þetta, jafnvel stuðningsmenn þessara breytinga, og sagt: Já, þetta er alveg rétt, en við verðum að treysta neytendum. Neytendur munu velja heilnæmu vöruna ef hún er á boðstólum við hliðina á vöru sem sannarlega er lakari að gæðum að þessu leyti. Ég held ekki. Ég held að það muni ekki gerast. Það sem mun gerast er að fátækt fólk mun kaupa það sem ódýrast er. Ef til boða stendur svínakál annars vegar og hins vegar heilnæmt kál ræktað innan lands, þá er hætt við því að fátæki maðurinn velji svínakálið. Ég óttast að það muni gerast. Ég óttast að þetta muni gerast líka í kjötframleiðslunni. Vita menn hvaðan ódýru kjúklingarnir sem eru á boðstólum í Bretlandi eru komnir? Halda menn að þeir séu allir komnir frá Bretlandi? Nei. Það sagði mér ágætur vinur minn sem er nú þekktur fyrir annað en að vilja ekki frjálst flæði vöru og þjónustu að sig óaði við því hvað það væri sem hann væri að láta ofan í sig og sín börn og nefndi sérstaklega kjúklinga og sagði að þeir kjúklingar sem væru ódýrastir í Bretlandi væru komnir frá Tælandi og Kína. Þar er það staðreynd að gæðaeftirlit með matvöru er miklu minna en gerist í Evrópu. En þessi vara kemur þangað inn og mundi að öllum líkindum koma hingað til Íslands líka.

Viljum við þetta? Viljum við ekki setja upp einhverjar varnir fyrir okkur og börnin okkar þannig að hér sé fyrst og fremst heilnæm matvara á boðstólum? Það á að vera markmið okkar, að sjálfsögðu. Það er ekki okkar markmið að reyna að samræma okkur niður á við, niður í óheilnæmari matvöru. Er það markmiðið? Nei. Það getur varla verið markmiðið. Við ætlum að reyna að standa vörð um búðarhillurnar á Íslandi þannig að þar sé fyrst og fremst að finna heilnæma matvöru. Það er markmiðið sem löggjafinn á að setja sér og ekki að horfa til hins, að reka hagsmuni einhverra tiltekinna búðareigenda, ekki að reka hagsmuni verslunarinnar eins og menn hafa gert hér á ýmsum öðrum sviðum. Það er nóg af talsmönnum hér þegar kemur að því að verja fyrirtækin en þegar kemur að því að verja einstaklingana, börnin, fátæka fólkið, hefur stundum verið skortur á talsmönnum slíkra sjónarmiða.

Þetta er markmið okkar númer eitt, að tryggja að heilnæm matvara sé á boðstólum. En það er ekki nóg, við viljum tryggja heilnæma matvöru á hagkvæmu verði. Auðvitað viljum við gera það líka. Auðvitað viljum við stuðla að því að verðlag á matvörunni sé sem hagkvæmast og sem best. Við vorum að ræða um daginn um mjólk og mjólkurafurðir. Þá voru hér aftur uppi fyrst og fremst talsmenn verslunarfyrirtækja sem horfðu algerlega fram hjá því að verð á mjólk og mjólkurafurðum á Íslandi hefur lækkað að raungildi á undanförnum árum, að raungildi, ekki í krónum talið, raungildi, miklu meira, um 20%. Þarf ekki að horfa til þess? Þarf ekki að horfa til þess að tryggja fyrirkomulag sem gefur okkur heilsusamlega matvöru á hagkvæmu verði? Auðvitað eigum við að horfa til þess, hvort sem er í mjólkinni eða öðru. Þetta viljum við helst að fari saman, heilnæm matvara og að hún sé á hagkvæmu verði.

Þriðji þátturinn sem ég vil nefna, sem hlýtur að vera markmið hjá okkur, er að stuðla að matvælaöryggi og sjálfbærni í matvælaframleiðslu, að því marki sem hægt er. Hér erum við að horfa inn í framtíðina. Það er ekki göfug framtíðarhugsun að ætla að fara að flytja kýr og naut í flugvélum á milli landa. Við höfum annað með sætin í flugvélunum og plássið í flugvélum að gera en að setja þar kýr og naut og svín og kjúklinga í öndvegi. Við eigum að flytja fólk og nauðsynlega vöru. Við eigum að stuðla að því að framleiða landbúnaðarvöruna í nærumhverfi okkar. Þetta er það sem felst í hugtakinu matvælaöryggi, að samfélagið verði sjálfu sér nægt í þessum efnum. Hvað þýðir það? Þá þurfum við að tryggja að hér sé fólk til staðar í þessum framleiðslugreinum, sem vinni við að framleiða matvæli í nærumhverfinu. Þá þurfum við náttúrlega að taka alvarlega varnaðarorð eins og birtust á forsíðu Bændablaðsins þar sem segir að samningurinn sem við erum að tala um hér sé reiðarslag og nær öruggt talið að margir þurfi að bregða búi. Þurfum við ekki að hlusta á þetta? Þessi varnaðarorð? Það sem er veruleikinn í þessu máli og er alveg hárrétt er það sem kemur fram í tilvitnuðum orðum formanns Bændasamtakanna, Sindra Sigurgeirssonar, þegar hann segir að við séum með þessu móti að flytja störf til útlanda. Það er það sem við erum að gera. Flytja störf til útlanda. Hann er ekkert einn um að segja þetta. Mig langar til að vitna hér í álitsgerð, samþykkt verkalýðsfélagsins Framsýnar, sem er einnig frá síðastliðnu hausti, 20. október 2015. Þetta eru samtök með þúsundir launamanna innan sinna vébanda, sennilega hátt í þriðja þúsund manns, sem starfa í matvælaframleiðslu á Íslandi. Þau segja, með leyfi forseta:

„Nýgerður milliríkjasamningur milli Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með búvörur og gagnkvæma niðurfellingu tolla vekur upp margar spurningar er viðkemur framtíð landbúnaðar á Íslandi og afleiddra starfa í matvælaiðnaði og þjónustu er tengist landbúnaði.

Á félagssvæði Framsýnar eru nokkur öflug matvælafyrirtæki sem veita tugum starfsmanna vinnu. Ljóst er að starfsemi þeirra verður sett í mikið uppnám gangi stefna stjórnvalda eftir í breytingum á tollvernd búvara.

Matvælaiðnaður á Íslandi er ein af stærstu undirgreinum iðnaðarins með um 17% af heildarveltu í iðnaði, fyrir utan fiskvinnslu. Á síðasta ári störfuðu um 4.000 starfsmenn við matvælaframleiðslu sem flestir eiga það sameiginlegt að vera í aðildarfélögum Alþýðusambands Íslands.

Framsýn gagnrýnir samráðsleysi stjórnvalda við verkalýðshreyfinguna sem hefur mikilla hagsmuna að gæta gagnvart þeim fjölda starfa sem er í hættu verði samningurinn staðfestur af Alþingi. Framsýn kallar eftir úttekt stjórnvalda á áhrifum þess fyrir landbúnaðarhéruðin og starfsmenn í matvælaiðnaði verði tollverndinni breytt. Það er algjört ábyrgðarleysi af stjórnvöldum að staðfesta breytingarnar frá Alþingi nema allar forsendur liggi fyrir hvað áhrifin varðar.“

Þegar við ræddum þetta sama plagg, þessa sömu þingsályktunartillögu síðastliðið vor las ég líka upp úr þessari ályktun. Ég hafði haft samband við forsvarsmenn Framsýnar til að spyrja þá, sem marga aðra, hver afstaða þeirra væri til málsins. Þeir sögðu mér að ég skyldi lesa ályktun þeirra, hún hefði að geyma varnaðarorð. Og ég las hana upp. Þetta stendur enn. Það sem ég vildi segja og sagði hér áðan: Auðvitað er skömminni skárra að hafa ekki hrapað að samþykkt málsins síðastliðið vor, að gefa þessu alla vega einhverjar vikur og mánuði til skoðunar, en það er bara ekki nóg að gert. Við þurfum að skoða þetta betur. Við eigum að huga þarna að framtíðarhagsmunum okkar.

Þetta mál snýst um svo margt. Þetta snýst um að tryggja heilnæmar matvörur á boðstólum á Íslandi fyrir alla, fyrir tekjulága og tekjuháa. Alla. Sami matur fyrir alla. Í öðru lagi viljum við tryggja heilnæma matvöru á hagkvæmu verði. Við viljum búa til fyrirkomulag eins og hefur verið gert í mjólkuriðnaðinum t.d. sem tryggir mjólkurafurðir á hagkvæmu verði. Það hefur tekist að gera. Við eigum að huga að þessu. En hvort tveggja þarf að fara saman. Það er ekki bara spurning um að fá einhverja matvöru, heldur góða, heilnæma matvöru. Við eigum í þriðja lagi að stuðla að matvælaöryggi, að íslenskt samfélag verði sjálfbært eins og kostur er um framleiðslu matvæla. Auðvitað gengur það ekki á öllum sviðum á Íslandi vegna þess hvernig við erum í sveit sett, hvar við búum, við þurfum alltaf að flytja talsvert inn af matvælum til Íslands og við flytjum eitthvað út. En við þurfum að huga að þessu. Og í fjórða lagi þurfum við að horfa til atvinnunnar. Auðvitað þurfum við að hlusta á fólkið í verkalýðssamtökunum sem er að biðja okkur að stíga ekki skref sem eru líkleg til þess að svipta fólk atvinnu sinni og atvinnu í matvælaiðnaði. Eigum við ekki að taka þau varnaðarorð og þær beiðnir alvarlega? Eigum við ekki að hlusta á Bændasamtökin? Eigum við ekki að hlusta á þessi aðildarfélög Alþýðusambands Íslands? Taka varnaðarorð þeirra alvarlega? Undir þau vil ég svo sannarlega taka.

Að lokum þetta, hæstv. forseti: Fyrir okkur er þetta örlagaskref. Við erum lítil þjóð. Við erum 330 þús. manns. Við erum að semja við 400–500 milljón manna markað. Það skiptir engu máli á þeim markaði hvað gerist. En fyrir okkur á Íslandi, 330 þús. manna þjóð með viðkvæman landbúnað, þá eigum við að taka alvarlega varnaðarorð þeirra sem þar starfa og bera umhyggju umfram allt annað fólk fyrir þessum atvinnuvegi.