145. löggjafarþing — 146. fundur,  5. sept. 2016.

samningur Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur.

783. mál
[17:35]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er nú eiginlega óhjákvæmilegt að koma í ræðustól og veita hv. þingmanni andsvar, enda erfitt að finna ræðu sem ég er meira ósammála en þessari ágætu ræðu sem minn góði vinur var að flytja rétt í þessu. Hv. þingmaður ruglaði saman fjöldamörgum þáttum til þess að finna rökstuðning fyrir þeirri einangrunarhyggju sem Vinstri hreyfingin – grænt framboð vill viðhafa í landbúnaðarmálum öllu öðru fremur. Hann misnotar sjálfbærnishugtakið til þess að réttlæta að breyta Íslandi í einhvers konar víggirta eyju þar sem ekkert er flutt út og ekkert inn. Hugmyndin að baki þessum samningi er sú að landbúnaðurinn sé atvinnugrein sem þurfi að geta ekki bara varist heldur líka sótt fram. Hún þurfi að geta sótt út á aðra markaði. Þess vegna er í samningnum samið um tollfríðindi við önnur lönd og á móti látum við heimildir til innflutnings þar sem er okkur auðveldast að leggja þær á móti. Við búum þarna til sóknarfæri fyrir íslenska framleiðslu sem á möguleika úti um allan heim, skyr, smjör, lambakjöt, séríslensk vara sem hefur íslensk sérkenni og við getum stutt þar af leiðandi við atvinnuframþróun. Alþýðusamband Íslands hefur kallað eftir þessu árum saman, að opnaðar verði heimildir með viðskiptasamningum við önnur ríki til útflutnings á íslenskum landbúnaðarvörum, þannig að Íslendingar sætti sig ekki við að landbúnaður verði alltaf deyjandi atvinnugrein heldur búi til möguleika til þess að hann geti vaxið, störfum í landbúnaði geti fjölgað. Það virðist vera stærsta ógnin í huga hv. þingmanns. Svo flytur hann hér hræðslusögurnar sem hann er svo oft búinn að flytja um að útlend matvara sé svo baneitruð að hana sé ekki hægt að éta. Fyrir nokkrum árum sagði hann að það væri hvergi hægt að fá linsoðin egg í útlöndum því egg væru almennt svo stórskaðleg í Evrópu. Allt hefur þetta margsinnis verið hrakið. Alltaf verður okkur í sjálfsvald sett að setja heilbrigðisreglur. Ekkert hér kemur í veg fyrir það. Hér er bara verið að tala um að hugsa (Forseti hringir.) stórt fyrir íslenskan landbúnað, gefa honum færi til að vaxa.