145. löggjafarþing — 146. fundur,  5. sept. 2016.

samningur Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur.

783. mál
[17:39]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Heilnæmi íslenskrar framleiðslu er mikilvægt og er auðlind og það sama má segja um litla lyfjanotkun. Allt er þetta samt hlutir þar sem við verðum að taka okkur á. Upplýsingar um þetta eru ekki mjög aðgengilegar, brotnar niður á bú t.d. Rekjanleiki matvæla er ekki tryggður. Það er okkar eigið sjálfskaparvíti. Ég fór út í Krónu um daginn og keypti svínakjöt. Þar stóð: Íslenskt svínakjöt. Svo stóð með smáu letri fyrir neðan: Upprunaland: Spánn. Þetta er íslenskt sjálfskaparvíti og hefur ekkert með neina alþjóðasamninga að gera. Við þurfum að setja skýrari viðmið sjálf. Við þurfum líka að aga okkar eigin framleiðslu. Við þurfum að auðvelda okkar eigin framleiðendum að koma upplýsingum á framfæri um að þeir standi sig vel. Við þurfum að auka samkeppni á milli þeirra þannig að góðu búin njóti þess í háu verði en hin sem nota meiri lyf, sem búa lakar að dýrum, gjaldi fyrir í verði. Þess vegna á líka að tryggja að búin séu opin fyrir fjölmiðlum þannig að aðbúnaður sé augljós, allir geti fylgst með að dýrunum sé vel sinnt. Þetta er nefnilega hluti af nýrri hugsun í íslenskum landbúnaði, þ.e. að afnema sullumbulls-aðferðafræðina sem flokkur hv. þingmanns hefur talað fyrir, þar sem öllu er hrært í einn pott, eitt verð fyrir alla, engin sérkenni á markaði, engin samkeppni milli afurðastöðva, engin samkeppni milli framleiðenda. Það ber dauðann í sér, mun fækka störfum, draga úr möguleikum á sóknartækifærum fyrir íslenskan landbúnað, vinna gegn höfuðsóknarmöguleikunum sem eru sérkennin, sérstakur uppruni, sérstakar vinnsluaðferðir. Það er það sem er mikilvægt, að afnema skussaverndina, auka á samkeppnina og tryggja að það sé mikil samkeppni fyrir opnum tjöldum milli ólíkra framleiðenda og ólíkra afurðafyrirtækja.