145. löggjafarþing — 146. fundur,  5. sept. 2016.

samningur Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur.

783. mál
[18:11]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég skal reyna að tala hratt svo ég komist yfir þetta. Ég vil meina að það sé ástæða til að tryggja og ef þarf bæta í eftirlit með matvöru til sölu á Íslandi, hvort sem hún er innlend eða erlend. Ég get samþykkt það að ýmsar sýkingar í mat eru eflaust hærri á ákveðnum svæðum og jafnvel innan Evrópusambandsins heldur en á Íslandi, það kom alla vega fram hjá gestum nefndarinnar, en það þýðir ekki að þær séu óheyrðar á Íslandi. Auðvitað eru sýkingar í matvælum almennt vandamál. Ísland er ekkert galdraríki gagnvart því. Eftir því sem matvælaframleiðsla verður iðnvæddari og í stærri stíl, og það hefur líka gerst á Íslandi, þeim mun meiri og ríkari áhersla þarf að vera á því að fylgjast með því. Ég get fullkomlega tekið undir það. Ég get hins vegar ekki séð að það hafi neitt með þennan samning að gera sem leyfir fyrst og fremst innflutning sem er á mjög svipuðu róli og sá innflutningur sem nú þegar er á sér stað.

Varðandi umhverfismálin er ég sammála því að umhverfismálin þurfi að skoða í sambandi við mat. Það kom einmitt fram hjá gesti fyrir nefndinni að það eitt að hætta að borða kjöt mundi minnka umhverfisfótspor viðkomandi fimmfalt. Það hefur í sjálfu sér ekki endilega allt með það að gera hvar matvælin eru framleidd. Það er lítið sem ekkert af íslenskum matvælum sem eru ekki að einhverju leyti framleidd með innfluttu fóðri eða (Forseti hringir.) algjörlega lyfjalaust. (Forseti hringir.) Hins vegar segi ég: Við eigum að treysta neytendum til þess að velja gæðavöruna. (Forseti hringir.) Ég hef engar áhyggjur af því að hann hafi ekki vit til þess.