145. löggjafarþing — 146. fundur,  5. sept. 2016.

samningur Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur.

783. mál
[18:51]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Steinunn Þóra Árnadóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þetta var um margt merkileg ræða hjá hv. þm. Árna Páli Árnasyni. Honum verður tíðrætt um það að hann telji fulltrúa míns ágæta þingflokks vera fulltrúa afturhalds og einangrunarhyggju þegar kemur að þessum samningi. Ég verð að segja það og kemur kannski engum á óvart að ég er því algjörlega ósammála og tel einmitt að það sem ég og félagar mínir í Vinstri grænum höfum verið m.a. benda á, bæði í nefndaráliti og í umræðum, er að horfa til framtíðar. Við viljum taka fleiri þætti undir. Ég verð að segja að það kom mér sannast sagna talsvert á óvart í ræðu hv. þingmanns, fyrrum formanns Jafnaðarmannaflokks Íslands, hvað ræða hans gekk mikið út á það að auka samkeppni eins og að samkeppni væri upphaf og endir alls. Samkeppni getur alveg verið ágæt á ýmsum sviðum en ég tel að hún sé ekki eini mælikvarðinn sem hægt er að nota eða skynsamlegt að nota og tel reyndar að það sé mjög hættulegt, þó svo að hér sé um að ræða tollasamning, að festast í slíkri umræðu og hugsa bara um verslunar- og viðskiptahagsmuni en horfa ekki til samfélagslegra og félagslegra þátta, umhverfislegra þátta og lýðheilsusjónarmiða.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann telji að hægt sé að nota samkeppni sem eina stóra mælikvarðann (Forseti hringir.) þegar kemur að máli eins og þessu sem við ræðum hér, hvort við verðum ekki að taka fleira inn í.