145. löggjafarþing — 146. fundur,  5. sept. 2016.

samningur Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur.

783. mál
[19:01]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Forseti. Þetta er fróðleg umræða um tollasamninginn sem hér liggur undir, viðskiptasamning Íslands við Evrópusambandið, og skiptar skoðanir á því hvernig hann muni koma út fyrir land og þjóð. Það er hægt að draga þetta hvort í sína áttina, þetta er auðvitað ekki svart og hvítt. Hv. þm. Árni Páll Árnason talar mikið um afturhaldssemi okkar vinstri grænna og einangrunarhyggju. Ég vísa því algerlega til föðurhúsanna að eitthvað slíkt sé í okkar málflutningi heldur viljum við að horft sé á áhrif tollasamningsins á þá aðila sem eiga mikið undir eins og bænda, það sé horft til neytenda og greining fari fram á því hvaða áhrif samningurinn hafi á atvinnu og byggð í landinu. Ég held að allir þessir þættir séu svo mikilvægir að eðlilegt sé, þegar ákveðið er að stórauka innflutning inn í landið á tollfrjálsri landbúnaðarvöru eins og þarna er verið að tala um, að slík greiningarvinna liggi fyrir. Það er ábyrgt að gera það og horfast í augu við það hvernig menn ætla að beita sér í mótvægisaðgerðum. Eða ætla menn að fljóta sofandi að feigðarósi og horfa upp á fjölda búa, bæði í svínakjöts- og alifuglakjötsframleiðslu, eggjaframleiðslu og annarri kjötframleiðslu í landinu, gjalda þess að fá slíkt magn inn á markaðinn til viðbótar við það sem fyrir er, sem gæti haft þær afleiðingar að framleiðsla og búrekstur legðist af víða um sveitir landsins? Ég held að það sé ekki óábyrgt að kalla eftir greiningarvinnu. Annað eins hefur verið gert um fjölmarga aðra hluti sem hafa efnahagsleg og þjóðhagsleg áhrif á Ísland sem heild.

Það má alveg nefna að talað er um að auka innflutning á svínakjöti á næstu fjórum árum úr 200 tonnum í 700 tonn, á alifuglakjöti úr 200 tonnum í 856 tonn, af unnum kjötvörum úr 50 tonnum í 400 tonn og pylsumagnið úr 50 tonnum í 250 tonn. Það munar um minna. Það getur reynst erfitt að reisa við matvælaframleiðslu ef sú framleiðsla dregst skarpt saman í kjölfar þessa og öll sú virðisaukakeðja sem fylgir vinnslunni og því að framleiða og fullvinna þessa vöru hér heima og koma henni á markað. Þar liggur auðvitað fjöldi starfa undir. Það er ekkert sem segir að sá mikli innflutningur sem boðaður er og tollasamningurinn felur í sér komi endilega neytendum til góða. Við höfum verið að auka tollfrjálsan innflutning og höfum stigið þau skref hægt og bítandi. En það er líka óánægja með að tollar á innfluttu kjöti hafi ekkert uppreiknast og það er krafa um að slíkt verði gert. Við þekkjum það líka að í dag, bæði í alifugla- og svínakjöti, nýta menn sér tollkvótana þannig að dýrustu hlutarnir eru fluttir inn, beinlausir bitar. Síðan þegar skortur verður á svínasíðum sem beikon er framleitt úr kemur sá innflutningur allur til viðbótar og er frjáls, svo að magnið er gífurlegt inn á markaðinn.

Það er mjög eðlilegt að við vinstri græn höldum til haga mikilvægi þess að á Íslandi er heilbrigði landbúnaðarafurða einstakt og ber af. Það er lítil lyfjanotkun. Varan er að mestu laus við kampýlóbakter og salmonellu sem hlýtur að skipta okkur gífurlegu máli.

Síðan eru það upprunareglur, að íslensk landbúnaðarframleiðsla sitji við sama borð og erlend landbúnaðarframleiðsla þegar afurðir þaðan eru fluttar til landsins í gegnum gagnkvæma tollasamninga. Annað skekkir auðvitað algerlega samkeppnisstöðu okkar við innflutta vöru. Það er hneyksli að hæstv. landbúnaðarráðherra sé ekki búinn að innleiða þær reglur að það eigi að vera hægt að upprunamerkja og að fyrir hendi séu upprunareglur um þá vöru sem við fáum til landsins svo neytendur geti haft á hreinu hvaðan hún kemur. Í dag höfum við ekki hugmynd um við hvaða aðstæður varan sem kemur til landsins erlendis frá er framleidd og hvort þar gildi lög um velferð dýra eins og við höfum sett hér á landi þar sem mjög strangar kröfur eru gerðar til landbúnaðargeirans um meðferð dýra, að varan sé hrein og algerlega hægt að rekja uppruna hennar og hún sé laus við lyfjanotkun eins og mögulegt er. Allt þetta er í einhverju tómarúmi og svartholi þegar kemur að öllum þeim innflutningi sem er til landsins. Það verða menn að lagfæra hið snarasta. Þetta er óásættanlegt.

Ég vil einnig koma inn á vistsporin sem fylgja því að flytja jafn mikið magn af landbúnaðarafurðum til landsins og stefnt er að í þessum samningi. Auðvitað eigum við að horfa til þess hvað það mengar minna að framleiða sem mest af landbúnaðarafurðum hér heima. Þó að við þurfum að flytja inn til rekstursins fóður og einhverja aðra framleiðsluvöru segir það sig sjálft að við drögum úr mengun með því að framleiða sem mest af landbúnaðarafurðum hér heima. Mér finnst það með ólíkindum að fyrrverandi formaður jafnaðarmannahreyfingarinnar á Íslandi gefi lítið fyrir þetta og telji það eitthvert lýðskrum á ferð hjá okkur vinstri grænum þegar við vekjum athygli á þessu í heildarsamhenginu, varðandi loftslagsmál og þau markmið sem voru sett á loftslagsráðstefnunni í París. Eigum við ekki að horfa á alla þætti? Ég vek athygli á þeirri breytingartillögu sem liggur fyrir þinginu frá okkur vinstri grænum um að umhverfisáhrif búvörusamningsins verði greind. Það á líka að horfa til þess og bera saman muninn á því að framleiða sambærilega vöru hér á Íslandi og að flytja hana um heimsins höf, t.d. frá Asíu. Það hlýtur að skipta máli að við reynum að draga sem mest úr loftslagsmengun. Allt skiptir máli í því samhengi.

Ég hef komið inn á það að verið er stofna ákveðnum atvinnugreinum í uppnám, þá nefni ég sérstaklega hvíta kjötið. Félag kjúklingabænda og Svínaræktarfélag Íslands mótmæla harðlega þeim tollasamningi sem nú liggur fyrir Alþingi. Með leyfi forseta, vitna ég í umsögn þeirra þar sem segir:

„Samningurinn var gerður án þess að fyrir lægi greining á neikvæðum áhrifum hans fyrir íslenskan landbúnað og matvælaframleiðslu. Stefna stjórnvalda í tollamálum grefur undan þeim starfsskilyrðum sem þarf til að bæta velferð dýra, baráttu við smitsjúkdóma og lyfjalausan landbúnað.“

Ég held að þarna sé meginatriðið dregið saman í mjög kjarnyrta yfirlýsingu og lýst áhyggjum sem er innstæða fyrir. Í umsögninni koma líka fram áhyggjur varðandi kjúklingaframleiðslu, alifuglaframleiðslu, með leyfi forseta:

„Þróunin í kjúklingum hefur verið á þann veg að tollverndin hefur rýrnað svo mikið að verulegur hagur er af því að flytja inn verðmætari hluta kjúklingsins svo sem eins og bringur á þeim tollum sem gilda á innflutning frá ESB. Þetta hefur verulegar afleiðingar fyrir framleiðendur enda bringur ein verðmætasta vara kjúklingabúa. Hlutdeild innflutnings í heildarmarkaði hefur vaxið úr 8% árið 2010 í 20% 2015. Innleiðing fyrirliggjandi tollasamnings tekur ekki á þessu heldur mun aukið framboð tollkvóta lækka verð á tollum sem mun ýta undir innflutning og veikja innlenda framleiðslu.“

Er þetta endilega það sem við viljum? Þurfum við ekki að horfa til afleiðinganna þegar er verið að sturta svo gífurlegu magni af kjöti inn á íslenskan markað á stuttum tíma? Ég held að við þurfum að gera það. Menn hafa líka áhyggjur varðandi framleiðslu á kindakjöti og nautakjöti í þessum efnum, í raun og veru allan kjötmarkaðinn, því þetta hefur áhrif á alla kjötframleiðslu innan lands. Ástandið er þannig núna í Evrópu í þeim löndum sem við höfum verið að fá svínakjöt og kjúklingakjöt frá, Ítalíu, Spáni og Danmörku svo einhver séu nefnd, að verðið hefur hrunið út af viðskiptabanni við Rússland. Þá fáum við inn á markaðinn hér ódýrara kjöt meðan þetta ástand er. Bændur í þessum greinum í Evrópu búa við vond kjör vegna þessa og neyðast til að lækka verð á afurð sinni. Þetta er ekki ástand til lengri tíma heldur er um að ræða verðfall á vörunni og hún kemur inn á markað hér og skekkir alla samkeppnisstöðu. Þetta verður ekki til frambúðar en hvaða áhrif hefur það á getu greinanna hérna til að halda áfram framleiðslu? Það vitum við ekkert um. Hætta er á að mörg fjölskyldubú sjái sæng sína uppreidda og þurfi að bregða búi. Þá sjáum við ekki fram á að greinin rísi aftur eins og ekkert sé þegar markaður hér kallar eftir aukinni innanlandsframleiðslu á hvítu kjöti, lambakjöti eða nautakjöti.

Það er því margt í mörgu í þessu máli sem við þurfum að horfa til. Við vinstri græn hugsum líka til neytenda í þessum efnum. Það er mikilvægt að neytendur fái góða og heilnæma vöru á eðlilegu verði. Við teljum að það eigi að vera eðlilegt samspil þarna á milli. Við leggjumst alls ekki gegn því yfir höfuð að landbúnaðarvörur séu fluttar inn á tollkvótum. En við viljum að það sé eitthvert jafnvægi á milli innanlandsframleiðslu og innanlandsmarkaðar og hins gífurlega stóra markaðar sem Evrópa er. Við getum ekki keppt tonn á móti tonni, þetta örsamfélag okkar á móti risamarkaði í Evrópu. Það er ekki sanngjarnt að stilla því þannig upp.

Talandi um samkeppni: Það er oft látið eins og það sé léttvægt þegar við tölum fyrir því að við þurfum að horfa á heildarmyndina, efnahag okkar og atvinnulíf, kjör bænda og hvernig stuðningur við bændur skilar sér til neytenda og alla virðiskeðjuna sem fléttast saman. Hvorki bændur, neytendur né byggðir landsins eru eyland, þetta spilar allt saman, og þegar einhverjir hlekkir í þessari keðju eru slitnir út þá geta hlutirnir farið af stað og margt hrunið undan, undirstöðurnar veikst og dómínó-áhrifin geta orðið eitthvað sem við ráðum síðan ekkert við. Þegar er talað um samkeppni eins og hún sé upphaf og endir alls í þessum heimi skulum við líka horfa til þess að oftar en ekki hefur verið farið í nafni samkeppni inn á ýmsa markaði með undirboð til þess að ná yfirtökum. Þegar menn hafa hrakið minni aðila út af markaðnum hafa þeir komið aftur og boðið vöruna eða þjónustuna á allt öðru verði og uppsprengdu. Við skulum líka hafa í huga að aðstæður eru mjög mismunandi og ekki víst að svokölluð markaðslögmál geti gilt alls staðar. Við þurfum líka að horfa á samfélagsleg áhrif og aðrar breytur en taka ekki bara samkeppni eina og sér út fyrir sviga og halda að hún standi ein fyrir hinu eina og sanna réttlæti og tryggi neytendum alltaf það besta þegar upp er staðið. Það þarf svo margt annað að haldast í hendur og aðstæður verða að vera þannig að það verði ekki samkeppni fárra sem ýti þeim smærri út af markaðnum.

Talandi um smærri aðila: Sú ánægjulega frétt birtist nýverið að mjólkurstöðin Arna í Bolungarvík sé að stækka við sig og byggja sig upp á Ísafirði til að framleiða osta. Við þurfum líka að standa vörð um innlenda ostaframleiðslu þó að við opnum t.d. á innflutning á hörðum, upprunamerktum ostum og gefum smærri aðilum í verslun sem sérhæfa sig í þeirri vöru möguleika á að hafa gott aðgengi að henni. Ég er alveg á því að við eigum að hafa þetta í bland án þess að ógna innanlandsframleiðslu. Ég held að menn geti það alveg ef þeir vanda sig í þessum efnum.

Hv. þm. Árni Páll Árnason kom inn á það að við vinstri græn værum að styðja einokunarframkomu MS. Það er með ólíkindum að hv. þingmaður láti slíkt út úr sér. Að sjálfsögðu styðjum við það ekki að fyrirtæki sem hefur einokunarstöðu á markaði komi þannig fram við minni framleiðendur að þeir sitji ekki við það borð að fá afurðina, mjólkina, til framleiðslu á eðlilegu verði. Við höfum talað fyrir því og vonumst til að fá fram breytingar í þeim efnum, að minni aðilar fái vöruna á kostnaðarverði sem eðlilegt er og fái næga mjólk til framleiðslu. En það má líka nefna að fyrirtæki eins og Arna í Bolungarvík hefur lýst yfir að það treysti sér ekki til að safna sjálft mjólkinni úti um allt land og treystir (Forseti hringir.) á að MS sjái um það og útvegi fyrirtækinu þá vöru eins og hefur verið hingað til.