145. löggjafarþing — 146. fundur,  5. sept. 2016.

samningur Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur.

783. mál
[19:34]
Horfa

utanríkisráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Ég árétta að komið hefur fram að þeir innflutningskvótar sem samið er um núna eru mjög svipaðir þeim árlega innflutningi sem verið hefur undanfarin tvö ár. Starfshópurinn var skipaður 8. apríl síðastliðinn. Margar af þeim tillögum sem þar eru lagðar fram eru komnar til framkvæmda eða eru við það að komast til framkvæmda, þannig að ég er að sumu leyti róleg yfir því og treysti sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fyllilega til þess að tryggja það að greinin verði ekki undir í samkeppni við þá erlendu aðila sem flytja inn vörur hingað. Ég treysti líka því að gæðin í íslenskum landbúnaði, hjá svínaræktendum og alifuglaræktendum, séu bara umtalsverð. Það hefur sýnt sig að neytendur eru mjög duglegir við að velja íslenskar afurðir vegna þess að þeir vita hversu heilnæmar þær eru. Ég held því að miðað við hvernig málið er vaxið og magn þess innflutnings sem um er að ræða að við getum þokkalega vel við unað. Hins vegar finnst mér mjög mikilvægt að við skoðum málið mjög gaumgæfilega og höldum áfram að tryggja framkvæmd þeirra tillagna sem starfshópurinn hefur lagt til.