145. löggjafarþing — 146. fundur,  5. sept. 2016.

samningur Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur.

783. mál
[19:38]
Horfa

utanríkisráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að þingmaðurinn hafi kynnt sér tillögur starfshópsins. Ég er að hugsa um að lesa þær nokkrar upp svo hún átti sig á því um hvað þær fjalla. Ég held að þær komi akkúrat inn á þau álitamál og þær áhyggjur sem sumir hafa haft af þessum samningi. Ég nefni í fyrsta lagi að lagt er til að skorti í tilteknum skrokkhlutum verði beint inn í tollkvóta með því að afmarka hluta ESB-tollkvótans fyrir þá vöruflokka sem er skortur á, í öðru lagi að við útreikning á magni tollkvóta við innflutning verði miðað við ígildi kjöts með beinum í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar, og í þriðja lagi að tollkvótum verði úthlutað oftar á ári, allt að fjórum sinnum í stað einu sinni til að viðhalda jafnara flæði inn á íslenskan markað. Einnig nefni ég að lagt er til að stjórnvöld leiti allra leiða til þess að setja frekari reglur um fyrirkomulag innflutnings með tilliti til gæðakrafna, einkum og sér í lagi er snertir lyfjanotkun og heilbrigðiskröfur til afurða.

Ég nefni þessar fjórar tillögur sérstaklega og mér finnst mjög brýnt að þær komist til framkvæmda. Ég hef leitað upplýsinga í atvinnuvegaráðuneytinu um það hvar þær eru staddar og mér skilst að framgangur þeirra sé þó nokkur.