145. löggjafarþing — 147. fundur,  6. sept. 2016.

störf þingsins.

[13:49]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Ég má til með að svara þessum ásökunum enda eru þær grafalvarlegar. Við í Pírötum höfum ávallt haldið því til haga að rafrænar kosningar geta aldrei eðlis síns vegna verið leynilegar. Þess vegna höfum við ítrekað talað gegn rafrænum kosningum þegar við erum með atkvæðagreiðslur, þjóðaratkvæðagreiðslur eða kosningar til Alþingis til að mynda, að þær verði aldrei hafðar rafrænar. Þetta er ein af grundvallarforsendum lýðræðisins.

Hins vegar erum við lýðræðisafl, við erum að reyna að gera hlutina öðruvísi og hluti af því er að við erum að reyna að þróa kosningakerfi. Lýðræði okkar kann að vera öðruvísi en varðandi það ferli að staðfestingarkosning yrði á landsvísu þá var lagt upp með það til að byrja með. Þetta var hluti af ferlinu frá upphafi þannig að það er ekki eins og við höfum ákveðið það eftir á. Kjördæmisráð ákvað að það skyldi vera staðfestingarkosning á landsvísu þegar kæmi að því hvort heildin öll treysti þessum lista. Er það ekki bara öðruvísi lýðræði? Ég spyr. Þurfum við ekki öll að treysta okkar pólitísku listum, fólki sem gengur til kosninga fyrir Pírata? Megum við ekki stundum reyna að vera með aðeins aðra nálgun á það hvernig við stundum lýðræði? Minna lýðræðislegt, meira lýðræðislegt en við gerum okkur fullkomlega grein fyrir því að rafrænar kosningar geta aldrei verið fullkomlega leynilegar.

Þegar þessi gögn voru greind var búið að aftengja þau persónum. Það var búið að sjá til þess að ekki væri hægt að greina bak við kennitöluna hver hefði kosið hvern. Það var hægt að sjá hvernig fólk kaus, þetta er eins og að athuga hversu margar konur eða hversu margir karlar ganga til kosninga.

Ég vísa þessum ásökunum til föðurhúsanna. Mér þykir þetta alveg einstaklega lágkúrulegt af hv. þingmanni og hann hefði getað bara spurt okkur eða reynt að koma þessu aðeins skikkanlegar frá sér, enda berjast Píratar fyrir lýðræðisumbótum og það þýðir stundum að við rekumst á ákveðna (Forseti hringir.) steina í götu okkar en þetta er ekki einn af þeim.


Efnisorð er vísa í ræðuna