145. löggjafarþing — 147. fundur,  6. sept. 2016.

störf þingsins.

[13:51]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Hæstv. forseti. Þann 23. ágúst sl. mælti hv. þm. Óttarr Proppé fyrir tillögu til þingsályktunar frá mér og öðrum þingmönnum Bjartrar framtíðar um þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu samhliða næstu alþingiskosningum. Það liggur líka frammi frumvarp frá mér um breytingu á lögum um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna, um undanþágu frá tímafresti. Ég velti fyrir mér af hverju í ósköpunum þetta fær ekki meiri hljómgrunn á Alþingi meðal þingmanna, ekki síst hjá stjórnarflokkunum sem lofuðu Íslendingum og kjósendum því að kosið yrði um þetta á kjörtímabilinu. Að mínum dómi eru þetta einhver mestu svik sem hafa verið framin í þessum sal og hafa þau verið nokkur, ekki síst frá þessum flokkum.

Ég er ekkert endilega sérstakur áhugamaður um Evrópusambandið eða fylgjandi því. Það er ekki gallalaust frekar en nokkuð annað í heiminum en um síðustu helgi fór fram Fundur fólksins og þar var m.a. rætt við Björn Karlsson, forstjóra Mannvirkjastofnunar, þar sem hann var að tala um húsnæðiskaup hér og í nágrannalöndum okkar. Þar tók hann dæmi um það að ef tekið væri 30 millj. kr. óverðtryggt lán hér þá borguðum við af því 191 þús. kr. á mánuði, talandi um að það sé erfitt fyrir ungt fólk að eignast húsnæði. Á sama tíma er verið að borga af sams konar láni í Noregi 47 þús. kr., 37 þús. kr. í Svíþjóð, 37 þús. kr. í Finnlandi og 30 þús. kr. í Danmörku. Við erum búin að eyða ómældum tíma á síðasta ári og þessu í að ræða húsnæðisfrumvörp til að reyna að koma til móts við lægra launaðar stéttir landsins til að þær geti eignast þak yfir höfuðið en við erum ekki tilbúin að leyfa fólki að velja hvort það vill fara inn í Evrópusambandið og búa við eðlileg vaxtakjör, lága verðbólgu og stöðugan gjaldmiðil. Nei, við erum ekki tilbúin í það.

Þetta eru ótrúleg svik og ég skil ekki að allir þingmenn hér í salnum, en allir flokkar (Forseti hringir.) hafa lofað því að það eigi að klára þessar aðildarviðræður, alla vega kjósa um það, skuli ekki standa með okkur í þessu máli. Það mundi leysa gríðarlegan vanda hér á landi.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna