145. löggjafarþing — 147. fundur,  6. sept. 2016.

störf þingsins.

[13:54]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Það er mér ljúft að svara hv. 4. þm. Suðvest., Árna Páli Árnasyni, þegar hann fjallar um rafrænt prófkjör Pírata. Hann virðist rugla saman, eins og reyndar annar hv. þingmaður, tölfræðiupplýsingum annars vegar og persónugreinanlegum gögnum hins vegar. Þetta er tvennt ólíkt, eins og við hljótum öll að vita. Það eru þekktir gallar við rafrænar kosningar sem enginn hefur verið jafn duglegur að tala um og píratar, þar á meðal í fjölmiðlum og kannski sérstaklega sá sem hér stendur. Þetta eru gallar sem er vel vitað að gera þær óæskilegar fyrir t.d. alþingiskosningar eða þjóðaratkvæðagreiðslur um til að mynda ESB. Hins vegar er rafrænt lýðræði þess eðlis að það þarf að gera tilraunir. Það þarf að halda áfram þróuninni til að ná betri áföngum í því og þess vegna er fullkomlega við hæfi, eins og ég hef margoft sagt í fjölmiðlum, að félagasamtök eða t.d. sveitarfélög eða minni einingar nýti sér rafrænt lýðræði með þeim göllum og mótvægisaðgerðum gegn þeim göllum sem í boði eru hverju sinni og haldi áfram að þróast. Ein af þeim félagasamtökum sem taka þátt í þessari tilraun með okkur eru Samfylkingin sem notar líka rafræn prófkjör, sem er gott og blessað. En það væri gleðilegt ef það væri jafn mikil opinber umræða um þau kerfi sem Samfylkingin notar og er hjá okkur. Það er vegna þess að við forðumst ekki þessa umræðu, þvert á móti fögnum við henni. Þess vegna er það mér ljúft að koma hingað og tala um þetta, því að það er mikilvægt málefni.

Þegar kemur að prófkjöri Pírata í Norðvesturkjördæmi er ágætt að hafa það á hreinu að það var Norðvesturkjördæmi sjálft sem setti sér þær reglur sem var farið eftir, ekki þingmenn Pírata, ekki neinn í Reykjavík. Það var fólkið í Norðvesturkjördæmi sem ákvað hvernig þessar reglur skyldu vera, fyrir fram að sjálfsögðu. Þess má geta líka á lokasekúndunum að Herbert Snorrason, en hv. þingmaður fór inn á ummæli hans, er ekki lengur í framboði. Hann fór úr framboði, tilkynnti fyrir fram að hann mundi ekki bjóða sig fram ef listinn yrði felldur, einmitt af þeirri ástæðu að hann vildi ekki að hans eigið framboð væri að þvælast fyrir. Ég vísa gagnrýni hv. þingmanns á bug en fagna því að við tökum þessa umræðu. Hún er mikilvæg.


Efnisorð er vísa í ræðuna