145. löggjafarþing — 147. fundur,  6. sept. 2016.

störf þingsins.

[14:03]
Horfa

Valgerður Gunnarsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég kem hingað til að ræða þá grafalvarlegu stöðu sem er uppi við verkefni PCC SE á Bakka við Húsavík og hvaða afleiðingar það getur haft fyrir Norðurþing, sveitarfélögin í kring og ríkissjóð. Gerður hefur verið fjárfestingarsamningur við PCC SE sem felur í sér að ríkisstjórnin skuldbatt sig til að koma í veg fyrir að nokkuð það gæti komið upp sem gæti haft þær afleiðingar að þetta verkefni stöðvaðist með þeim afleiðingum sem það hefði í för með sér. Þær afleiðingar eru m.a. þær að sveitarfélagið Norðurþing gæti orðið gjaldþrota. Ef þessar framkvæmdir yrðu stöðvaðar gæti það líka haft það í för með sér að ríkissjóður yrði að greiða milljarða í skaðabætur. Við megum ekkert við því. Þar fyrir utan er þessi staða til þess fallin að eyðileggja orðspor okkar Íslendinga sem lands sem vænlegt er að stofna til atvinnustarfsemi í. Allt þetta er í deiglunni núna ef ekkert verður að gert. Hins vegar hafa sveitarstjórnarmenn fundað með aðilum sem þetta varðar og ég hef þau orð hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra að unnið sé að því hörðum höndum að koma í veg fyrir þennan skaða.

Við skulum gera okkur grein fyrir því að samningsaðilar okkar, Þjóðverjar í þessu tilfelli, hafa enga þolinmæði til lengri tíma. Þeir skilja ekki svona vinnubrögð.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna