145. löggjafarþing — 147. fundur,  6. sept. 2016.

Vatnajökulsþjóðgarður.

673. mál
[14:23]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þá er það alveg kýrskýrt hver túlkun nefndarinnar er og mikilvægt er að allir séu meðvitaðir um það. Ég heyrði hvað hv. þingmaður sagði, hann talaði mjög skýrt og ég er sammála honum, ég átta mig á rökunum að áheyrnarfulltrúinn er með fullgilda aðild.

Síðan vildi ég líka spyrja af ástæðu. Nú er þjóðgarðurinn fyrir alla Íslendinga og mjög mikilvægt að þannig verði það. Það skiptir máli að fólk fái að njóta þjóðgarðsins. Þeir aðilar sem hafa notað hann og hafa verið frumkvöðlar á þessu sviði og hafa gert það um áratugaskeið, ég held að fullyrða megi að almenna reglan sé sú að þeir fari vel með og séu náttúruverndarsinnar í bestu merkingu þess orðs. En ég vildi fá að vita, virðulegi forseti, af því að ég held að á einum stað séu tekin út orðin „og njóta“ í breytingu 2. gr. laganna þar sem segir: Gefa almenningi kost á að kynnast og njóta náttúru og sögu svæðisins. Ég spyr því hvort það sé rétt og hvort eitthvað sé um það að ræða í frumvarpinu að við séum að draga úr rétti almennings til að njóta þjóðgarðsins. Ég skal alveg viðurkenna að mér finnst sumir sem að þessum málum koma nálgast þetta svolítið sérkennilega og séu jafnvel með einhverjum hætti að reyna að takmarka aðgengi almennings og sérstaklega þess hóps sem eru náttúruverndarsinnar í bestu merkingu þess orðs. Það þoli ég illa. Ég spyr því hv. þingmann hvort eitthvað sé í frumvarpinu sem takmarki aðgengi fólks að þjóðgarðinum umfram það sem nú er.