145. löggjafarþing — 147. fundur,  6. sept. 2016.

Vatnajökulsþjóðgarður.

673. mál
[14:25]
Horfa

Frsm. um.- og samgn. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst aðeins varðandi áheyrnaraðildina. Ég held að við hv. þingmaður skiljum það nákvæmlega eins, við erum að tala um og það er mjög skýrt í nefndaráliti að þeir sem eru með áheyrnaraðild hafi bæði málfrelsi og tillögurétt. Engum blöðum er um það að fletta.

Nei, ég tel heldur ekki að við séum að takmarka aðgang á nokkurn hátt. Við erum hins vegar að styrkja hann, mundi ég segja. Það sem frumvarpið gengur fyrst og fremst út á er að skýra þær reglur sem gilda. Við sjáum að ásókn í þjóðgarðinn er gríðarlega mikil. Það eru ekki bara útivistarsamtök, heldur líka fólk sem vill reka þar alls kyns atvinnutengda starfsemi, fá leyfi til kvikmyndagerðar o.s.frv. Það hafa komið upp mál sem hafa valdið óvissu og einstakir aðilar hafa kannski upplifað að starfsemi þeirra eða vera þeirra hafi stangast á við aðra. Við vildum reyna með öllum tiltækum ráðum að skýra þetta. Ég tel að okkur hafi tekist það. En það kemur fram algjörlega nýr kafli í 15. gr. þar sem kveðið er á um hvernig eigi að fara með alla þá samninga sem snúa að atvinnutengdri starfsemi og líka um leyfisveitingar vegna skipulagðra viðburða sem kalla á aðstöðu, mannafla eða meðferð tækja. Megintilgangurinn er að upplifun alls fólks af þjóðgarðinum verði ánægjuleg. Þar hafi það allir á tilfinningunni að gengið sé um þjóðgarðinn okkar af mikilli ábyrgð, vegna þess að þetta er okkar stærsta og fallegasta náttúruperla. Við þurfum að sýna henni fulla virðingu. Ég tel að verið sé að gera það í þessu frumvarpi.