145. löggjafarþing — 147. fundur,  6. sept. 2016.

Vatnajökulsþjóðgarður.

673. mál
[14:50]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég verð að viðurkenna að ég hef aldrei sett mig sérstaklega vel inn í þjóðlendumálin. Hins vegar er ég almennt þeirrar skoðunar að við eigum að reyna að hafa sem mesta og besta yfirsýn yfir þetta miðlægt, þ.e. að yfirsýnin sé á einum stað. Ég nefndi það áðan að ég teldi eðlilegt hvað þjóðgarðana varðar að við værum með eina stjórn yfir öllum þjóðgörðum sem hefði þá það hlutverk í raun og veru að vera faglegur eftirlitsaðili með þeim ákvarðanatökuaðilum um það hvar eigi að byggja upp og hvert fjármagn eigi að fara.

Í allri svona umræðu er ég alltaf tilbúin og opin fyrir breytingum sem leiða til þess að við verðum með öflugra fyrirkomulag og öflugra utanumhald. Ég held að menn eigi að taka þetta samband inn í umræðuna um þjóðgarða á miðhálendinu og skoðunina á því. Það verður án efa gert. Ég er mjög spennt fyrir því að stofnaður verði þjóðgarður á miðhálendinu og ég deili því með, held ég örugglega, meiri hluta þingmanna hér inni. Ég hef saknað þess að við ræðum ekki hvernig sá þjóðgarður eigi að líta út, því að ég held að ekki séu allir á sama stað með það hvernig hann eigi að vera. Ég held að stóra verkefnið núna sé að hefja það samtal vítt og byrja það verkefni að þrengja okkur niður á það hvar við ætlum að enda með slíkan þjóðgarð, af því að við viljum hann öll. Það er best að mínu viti að fara að hefja þá vinnu sem allra fyrst svo útkoman verði sem best. Komum okkur út úr þrasinu, höfum þetta þverpólitískt og reynum að ná einhverri almennilegri samstöðu um það verkefni. Ég held að það verði farsælast.