145. löggjafarþing — 147. fundur,  6. sept. 2016.

Vatnajökulsþjóðgarður.

673. mál
[14:52]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu. Það geta allir verið sammála um að við þurfum að standa vel vörð um þjóðgarðana okkar en það virðist vera ósamræmi í því hvernig rekstri þeirra er háttað og utanumhaldi. Því langar mig að spyrja hv. þingmann, því að nú hefur verið til umræðu að gera gjörvallt hálendið að einum þjóðgarði, hvort hún telji að það mundi í raun og veru styrkja hina, hvort þá mundi ekki alveg örugglega fylgja fjármunir til þess að geta rekið þjóðgarðinn með sóma og hvort þingmaðurinn haldi að við þurfum að breyta eitthvað stjórnsýslunni í kringum þessa mestu og dýrmætustu, ég mun ekki segja eign þjóðarinnar, heldur það sem við eigum að passa upp á fyrir komandi kynslóðir. — Svolítið skrýtin klukkan hérna.

(Forseti (EKG): Forseti hefur áður tilkynnt að það er eitthvað bilerí, en forseti fylgist nákvæmlega með tímasetningunni.)

Maður áttar sig ekki sjálfur á því hvað maður má tala mikið. Það er eins og maður fái alltaf meiri tíma, þetta er draumastaða.

Það sem mér leikur mest forvitni á að vita er hvort það mundi styrkja núverandi þjóðgarða ef við settum á stofn þjóðgarð fyrir allt miðhálendið og hvað við þurfum helst að gera til þess að laga stöðuna eins og hún er í dag.