145. löggjafarþing — 147. fundur,  6. sept. 2016.

Vatnajökulsþjóðgarður.

673. mál
[15:01]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér um frumvarp til laga um breytingu á lögum um Vatnajökulsþjóðgarð. Um er að ræða frumvarp sem byggir á ákveðinni endurskoðunarskyldu sem var saumuð inn í lögin um Vatnajökulsþjóðgarð, nr. 60/2007. Þá strax var samþykkt í lögunum ákvæði til bráðabirgða um að endurskoða ætti stjórnfyrirkomulag garðsins eigi síðar en í janúar 2013 í samstarfi ríkis og sveitarfélaga. Sú vinna var sett í gang veturinn 2012/2013. Starfshópurinn skilaði síðan niðurstöðu sinni um endurskoðun á stjórnfyrirkomulagi Vatnajökulsþjóðgarðs í ágúst það ár. Þannig má segja að við séum í raun og veru enn þá að byggja á lagarammanum sem settur var 2007 en ekki síður þeirri hugmyndafræði sem var lögð til grundvallar því að Vatnajökulsþjóðgarður varð yfir höfuð til. Ég held að rétt sé að staldra við það í þessari umræðu að mikil áhersla var lögð á að grunnurinn væri mjög breið pólitísk og fagleg samstaða, að um grunninn að Vatnajökulsþjóðgarði ríkti sátt og sameiginlegur skilningur vegna þess að mikilvægt væri að þjóðgarðurinn stæði undir nafni burt séð frá úrslitum þingkosninga eða pólitískum sviptingum á hverjum tíma.

Af þeim sökum og í ljósi þessarar samstöðu og þessa kjarna og þessarar forsögu þótti okkur í umhverfis- og samgöngunefnd algerlega óhjákvæmilegt að leita leiða til að ná sátt um frumvarpið sem hér er til umfjöllunar. En það er skemmst frá því að segja að frumvarpið eins og það kom frá umhverfisráðuneytinu olli töluverðum titringi. Menn höfðu áhyggjur af því að verið væri að draga úr þessu valddreifða stjórnfyrirkomulagi þjóðgarðsins og jafnframt væri verið að auka miðstýringu að miklum mun. Þessar áhyggjur voru orðaðar bæði á fundum nefndarinnar og í umsögnum við frumvarpið.

Nefndin varð sammála um að ekki væri viðunandi að ljúka málinu með slíkar áhyggjur innan borðs. Af þeim sökum, eins og hér hefur aðeins komið fram í framsögu hv. formanns nefndarinnar og hv. þm. Katrínar Júlíusdóttur, freistuðum við í nefndinni þess að leiða þau sjónarmið saman og ná betri sátt um málið. Til þess var sett sérstök vinna í gang núna í sumar og sú tillaga sem hér er til umfjöllunar er afurð þeirrar vinnu, þ.e. afurð þeirrar vinnu sem hafði að markmiði að ná meiri sátt um málið og draga úr þeirri tortryggni sem um það ríkti. Þetta samstarf var fyrst og fremst við stjórn þjóðgarðsins, umhverfis- og auðlindaráðuneytið og síðan við ákveðna hagsmunaaðila sem deildu þessum sjónarmiðum með okkur. Við töldum öll afar óheppilegt ef við værum með frumvarpinu og endurskoðuninni að stefna í uppnám þeirri miklu sátt sem hafði verið um grundvöll garðsins á sínum tíma. Ástæðan fyrir þeirri hugsun, a.m.k. af hendi þeirrar sem hér stendur, snerist ekki bara um Vatnajökulsþjóðgarð heldur ekki síður um þá umræðu sem hér hefur aðeins verið drepið á, þ.e. umræðuna um mögulegan miðhálendisþjóðgarð. Við vitum að í slíkan þjóðgarð verður ekki ráðist nema við séum með sambærilega sátt til grundvallar. Ég fæ kannski að víkja aðeins betur að því hér á eftir.

Mig langar að nefna nokkur atriði varðandi þessi mál, kannski ekki svo mikið um einstök tæknileg úrlausnarefni sem ágætlega er gerð grein fyrir í nefndaráliti og breytingartillögum heldur miklu frekar um þá stærð sem við erum með í okkar höndum sem er hvorki meira né minna en stærsti, eða næststærsti, það eru nokkur áhöld um það, þjóðgarður í Evrópu. Þetta er að minnsta kosti langstærsta friðlýsta svæði landsins og þarna er starfsemi sem eykst mjög frá ári til árs. Við vitum að sú aukna starfsemi gerir kröfu um töluvert aukið umfang bæði starfsfólks, fjármuna, faglegs baklands og annarra þátta sem þurfa að vera fyrir hendi til þess að byggja góðan þjóðgarð. Við höfum sérstakan kafla í nefndarálitinu sem varðar fjárframlög til þjóðgarðsins. Það er kannski ekkert sérstaklega venjulegt að fagnefnd Alþingis geri það. En við töldum það afar mikilvægt í ljósi þessa máls sérstaklega að nefndin í heild léti þau skilaboð frá sér fara í þverpólitískri sátt að við teldum að auka þyrfti verulega fjármagn til rekstrar þjóðgarðsins. Það þarf að auka verulega í innviðauppbyggingu og tryggja viðunandi skilyrði innan þjóðgarðsins, fjölga starfsmönnum sem vinna á starfsstöðvunum sjálfum en ekki síður — og í andsvari hv. þm. Líneikar Önnu Sævarsdóttur áðan kom fram umræðan um skrifstofuna og þessa fámennu starfsstöð — þá getur nefndin þess sérstaklega að gríðarlega mikilvægt er að fjölga á skrifstofu þjóðgarðsins með auknum umsvifum. Það er ekki vegna þess að við séum sérstaklega áhugasöm um marga starfsmenn á skrifstofum almennt heldur kannski miklu frekar vegna þess að efla þarf mjög faglegt bakland þjóðgarðsins. Það er mikilvægt fyrir þjóðgarðsverði, landverði og aðra þá sem vinna á vettvangi að geta sótt í smiðju sterks, faglegs baklands sem byggir á rannsóknum, þekkingu og almennilegri fjármögnun. Það er ekki fyrir hendi í dag. Starfsmenn úti á örkinni, hvort sem það eru landverðir, þjóðgarðsverðir eða aðrir, þurfa jafnvel að leysa úr málum allt of mikið frá degi til dags. Það sama gildir um verkefni sem ættu að vera í faglegu baklandi en eru jafnvel á hendi stjórnar þjóðgarðsins sem er samsett með tilteknum hætti en þarf að takast á hendur verkefni sem væri miklu betur fyrir komið á öflugri, faglegri starfsstöð.

Þáttur sem líka þarf að nefna er samspil Vatnajökulsþjóðgarðs og þeirrar uppbyggingar sem þar hefur verið, stjórnunar- og verndaráætlunar þjóðgarðsins, og síðan nýsamþykktra náttúruverndarlaga. Við fjölluðum nokkuð um að mikilvægt væri að samræma ákvæði laganna og kannski meira framkvæmd laganna við það sem er að finna í nýsamþykktum náttúruverndarlögum. Við teljum rétt að skoðað verði hvort sérstaka samræmingu þurfi milli þeirra ákvæða sem er að finna í náttúruverndarlögum og laga um stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs, sérstaklega um utanvegaakstur. Við teljum að það sé eitthvað sem þurfi að kanna. Við teljum líka mikilvægt að hafa sjónarmið þjóðgarðsins sérstaklega í huga þegar við ræðum um samspil almannaréttar og sívaxandi ferðaþjónustu sem er að finna í bráðabirgðaákvæði með lögum um náttúruvernd, nr. 60/2013. Umhverfisráðherra ber að leggja fram frumvarp um þau mál á haustþingi 2017 hið síðasta. Það er kannski eitt af stærstu og flóknustu viðfangsefnum sem er við að eiga í náttúruvernd á Íslandi, einmitt þetta samspil milli hins aldagamla frjálsa aðgangs almennings að landinu til þess að njóta þess og skoða og síðan aukins álags af völdum aukinnar ferðaþjónustu og atvinnurekstrar sem byggir í raun og veru sinn grunn á náttúru Íslands. Það er á mörkunum að okkur dugi sá tími sem er fyrir hendi til að klára það fyrir tilsettan tíma en á sama tíma er óviðunandi annað en að þessi réttarstaða sé skýrð. Það er gríðarlega mikilvægt að sú réttarstaða sé skýrð með viðunandi hætti.

Mig langar að víkja að þáttum sem lúta að samspili Vatnajökulsþjóðgarðs við önnur friðlýst svæði og aðra þjóðgarða. Hér var aðeins rætt um það í andsvörum áðan. Það hefur verið til umfjöllunar á ýmsum vettvangi og á vettvangi umhverfis- og auðlindaráðsins þegar sú sem hér stendur gegndi embætti umhverfis- og auðlindaráðherra að samþætta þau verkefni betur. Ég veit að hv. þm. Líneik Anna Sævarsdóttir þekkir að á yfirstandandi kjörtímabili hefur það líka verið til skoðunar að samþætta sérstaklega þau verkefni sem lúta að friðlýstum svæðum, þjóðgörðum og öðrum framkvæmdatengdum verkefnum sem heyra undir umhverfis- og auðlindaráðuneytið. Það væri fróðlegt að heyra í andsvari hjá hv. þingmanni hvaða áskoranir voru helstar í því verkefni öllu saman, því að þær eru töluvert margar. Það er mikilvægt að við náum hér á einhverjum tímapunkti þverpólitískri vinnu um þessi mál. Það að lenda alltaf í einhverri pólitískri blindgötu með svona mál í aðdraganda kosninga eða hvað það er og geta í raun aldrei náð almennilega utan um málið er óviðunandi. En það er eitthvað sem við sjáum gerast ítrekað. Staðan er sú að við erum með yfir 100 friðlýst svæði í landinu. Utanumhald um þau er með ýmsu móti, friðlýsingarskilmálarnir eru með ýmsu móti og varðveislugildið mismunandi og verndargildið með ýmsum hætti. Við erum með þrjá mismunandi þjóðgarða sem heyra undir þrjár ólíkar stofnanir og tvö ólík ráðuneyti. Það er jafnvel þannig að við erum með starfsfólk tveggja þjóðgarða eða tveggja stofnana hlið við hlið á sömu þúfu í sitt hvorum bolnum með sitt hvoru merkinu en báðir eru að vinna fyrir íslenska ríkið til að verja náttúru Íslands fyrir íslenskan almenning og í þágu náttúrunnar til lengri framtíðar og komandi kynslóða. Við erum í raun að fara bæði illa með mannafla og fjármagn þegar við gerum þetta svona. Og ég held að það sé mikilvægt að við náum utan um þessa hugsun alla samhliða því sem við skoðum hvernig við komum miðhálendisþjóðgarði og undirbúningi að honum af stað.

Eins og fram hefur komið er stofnun miðhálendisþjóðgarðs eða þingsályktunartillaga um að kanna forsendur og skilgreiningu á miðhálendisþjóðgarði til umfjöllunar í umhverfis- og samgöngunefnd. Það er þingmál sem er flutt af þingflokki vinstri grænna en er hins vegar mál sem hefur notið töluverðs þverpólitísks stuðnings, bæði í þinginu og utan þings, af grasrótarhreyfingum og ýmsum því um líkum. En síðan gerist það fyrir einhverjum fáum mánuðum að hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra setur af stað vinnu undir sínu ráðuneyti þar sem hún felur embættismönnum með aðkomu grasrótarhreyfinga að kanna forsendur stofnunar miðhálendisþjóðgarðs. Því ber að fagna að þar komi fram pólitískur stuðningur við málið en hins vegar er sérkennilegt að segja má að með vissum hætti sé ráðherrann þar með að grípa fram fyrir hendur þingsins sem hefur málið til umfjöllunar hjá sér og það vekur líka áhyggjur. Ég held að það sé eitthvað sem við þurfum að ræða, þó að það hafi verið rætt hér aðeins við ráðherrann í óundirbúnum fyrirspurnatíma, að það er mikilvægt fyrir svona verkefni að það sé jafnframt unnið í þverpólitískri samstöðu. Ég hef væntingar til þess að í aðdraganda kosninga verði þetta rætt og ég tók eftir því á Fundi fólksins sem haldinn var um helgina, þótt ekki væru fulltrúar alla flokka á því sérstaka málþingi sem fjallaði einmitt um miðhálendisþjóðgarð, voru allir á því, með blæbrigðamun, að þetta væri mikilvægt að skoða. Ég held að við eigum að halda því áfram. Ég held líka að skilningur manna á því að þarna fari saman vernd og aðgengi, vernd og fræðsla, sé að aukast og fólk sér líka að þjóðgarður snýst ekki um að loka og banna heldur líka um að skilgreina mismunandi verndargildi svæða og að sum svæði séu þannig að þau megi varla snerta meðan önnur séu þeirrar gerðar að þar sé jafnvel verið að stunda hefðbundinn landbúnað og aðrar nytjar án þess að það ógni þjóðgarðinum með nokkru móti.

Hér hefur líka aðeins verið rætt hvort stjórnfyrirkomulag slíks þjóðgarðs ætti að vera með sama móti og stjórnfyrirkomulag Vatnajökulsþjóðgarðs. Það er auðvitað algerlega sérstök hugsun og líka ástæðan fyrir því að það náðist sátt um Vatnajökulsþjóðgarð á sínum tíma að þar er ekki bara miðlæg stjórn heldur eru svæðisráð. Það eru ráð sem eru skipuð af heimamönnum sem hafa bæði taugar til svæðisins og þekkja það best, bæði náttúrufarið og umhverfið o.s.frv. Svæðisráðin eiga síðan fulltrúa í stjórn garðsins. Þarna tvinnum við saman með mjög óvenjulegum og skapandi hætti heildarsýn og sterka aðkomu heimamanna. Það finnst mér vera sjónarmið sem væri mjög mikilvægt að vera nestuð með, ef svo má að orði komast, inn í stjórnfyrirkomulag miðhálendisþjóðgarðs, að vera með samhæfða og miðlæga sýn á það sem mikilvægast er en um leið að tryggja aðkomu heimamanna, bæði í daglegri umsýslu en ekki síður í stefnumörkun, innviðauppbyggingu o.s.frv. Við sjáum það í allri löggjöf, umsýslu, áherslum og þróun á þessum þáttum í náttúruverndarmálum undanfarin ár og áratugi að við erum að færa okkur frá miðstýringu í áttina að meiri dreifstýringu. Við erum að færa okkur meira í þann farveg að náttúruverndin eigi í raun og veru að eiga heima heima. Það dugi ekki að stýra allri náttúruvernd frá einhverjum miðlægum, ósýnilegum stað. Þetta er gríðarlega mikilvægt. Um leið búum við við þá áskorun á Íslandi þar sem hartnær tveir þriðju landsmanna búa á höfuðborgarsvæðinu með litla eða enga landfræðilega aðkomu að þessum mikilvægu náttúruverndarsvæðum að tryggja sameiginlegan skilning allra landsmanna á mikilvægi þjóðgarðsins og sameiginlega tilfinningu fyrir því að allir íbúar eigi þjóðgarðinn saman. Það er vegferð sem við þurfum að finna út hvernig við eigum að nálgast því að það er auðvitað eðlilegt að allir landsmenn eigi í einhverjum skilningi þjóðgarðinn þannig að hann standi undir nafni sem slíkur.

Ég veit að hv. þm. Líneik Anna Sævarsdóttir, sem ég er hér ítrekað að ávarpa sérstaklega því að hún situr hér í salnum, hefur líka áhuga á að ræða þjóðlendur og samspil við þá þætti, þ.e. við friðlýst svæði, þjóðgarða, þjóðlendur, og hvernig við stillum saman strengi varðandi öll þau landsvæði sem eru á hendi ríkisins með einhverju móti. Mér finnst það afar spennandi hugsun að hérna megi samhæfa og samþætta. Ég held að það sé eitthvað sem við eigum líka að skoða. En ég segi það enn og aftur, af því að við hv. þingmaður höfum góða reynslu af því í alls óskyldu máli, þ.e. endurskoðun á nýjum lögum um útlendinga, að við flytjum ekki fjöll bara í nafni meiri hluta á Alþingi heldur verðum við að gera það þverpólitískt. Ég held að miðhálendisþjóðgarður eða einhvers konar heildarutanumhald um náttúruverndarsvæði á Íslandi verði að vera með þeim hætti.