145. löggjafarþing — 147. fundur,  6. sept. 2016.

Vatnajökulsþjóðgarður.

673. mál
[15:26]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið og get tekið undir að ég held að skynsamlegt sé að næstu skref verði tekin í breiðri samvinnu, bæði pólitískri og þverfaglegri, því að stundum finnst okkur, og mér oft og tíðum, kannski allt of fáir fagmenn á þessu sviði en þar er þó mikil sérhæfing. Hver lítur á sitt verkefni sem það mikilvægasta, eins og gengur.

En mig langar að koma inn á tvennt annað. Hv. þingmaður kom aðeins inn á þjóðlendurnar. Framvinda þess verkefnis, þjóðlenduverkefnis, er sú að ríkið er að taka við ákveðinni umsjón með töluvert miklu af landi. Ef ég skil rétt hefur í stjórnsýslunni verið töluvert mismunandi sýn á hvernig menn fara þá með það land, hvort það sé bara fyrst og fremst það að búið er að skilgreina mörkin. Þá geti hugsanlega verið að aðrar stofnanir komi að stjórnsýslu og umsjón með því landi. Til dæmis ef þjóðgarður á miðhálendinu yrði til. Það yrði væntanlega hluti af því samtali, og hvort á að nálgast það út frá þjóðgarða- og verndarhugsuninni eða út frá þjóðlenduverkefninu sem slíku, eða bara taka allt saman í eina umræðu.

Síðan er það aftur á móti aðkoma almennings og áhugamannafélaga. Þar sem voru stofnuð náttúruverndarsamtök og -félög um land allt upp úr 1970, þegar náttúruverndarhugsun var að koma á fullt inn í þjóðfélagið, þá færðist þetta meira yfir á miðlæg samtök. Ég held að mjög mikilvægt sé ef á að nást breið sátt að einhvern veginn verði ýtt undir þessa starfsemi (Forseti hringir.) áhugamanna um land allt. Með hvaða hætti sér þingmaðurinn það?