145. löggjafarþing — 147. fundur,  6. sept. 2016.

Vatnajökulsþjóðgarður.

673. mál
[15:55]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er algjörlega sammála hv. þingmanni í þessu. Ég get sagt hér og sagði líka áðan að ég hef sjálf skipt um skoðun í þessu. Einu sinni var ég á þeirri skoðun að okkur dygði líklega að fá eitthvert eitt gjald einhvers staðar frá ferðamönnum, t.d. bara við komuna til landsins eða í gegnum gistináttagjald, og síðan ætti það að fara í pott og dreifast til uppbyggingar innviða um landið. Síðan hefur landslagið gjörbreyst. Við erum ekki að tala um nokkur hundruð þúsund ferðamenn, á þessu ári er því spáð að þeir verði 1,6–1,7 milljónir. Og vöxturinn heldur áfram. Það þýðir að ef við ætlum að tryggja að varan náttúra Íslands, sem er aðalaðdráttaraflið hingað til lands, haldist ósnortin og verði áfram aðdráttarafl, ef við ætlum þar með bæði að vernda náttúruna og tryggja undirstöður atvinnugreinarinnar, verðum við að fara að aðgangsstýra. Það er svo einfalt. Það gerum við best með gjaldtöku. Þá er bara spurning hvernig því verður best fyrir komið þannig að við verðum ekki með hlið á öðru hverju horni í íslenskri náttúru. Þetta er allt hægt og hefur allt verið gert áður. Þetta snýst um að taka sameiginlega ákvörðun um að hrinda þessu öllu í framkvæmd, vera með einhverja áætlun um hvað menn vilja gera.

Það breytir samt ekki því að við munum alltaf þurfa að setja mjög mikla fjármuni frá hinu opinbera til þessara staða. Þar höfum við brugðist. Við höfum verið allt of lengi föst í því að deila um hvaða aðili eigi að innheimta þetta gjald. Á meðan höfum við sólundað dýrmætum tíma sem við hefðum annars haft til innviðauppbyggingar um landið allt. Ríkið hefur ekki staðið sig í því. Eins og hv. þingmaður kom inn á í sinni ræðu hefur þessi ríkisstjórn ekki staðið sig í því að koma með nægt fjármagn til þess að (Forseti hringir.) tryggja öryggi ferðamanna á vegum landsins eða í náttúru Íslands. Þetta kostar allt fjármuni. Við þurfum að fara að horfast í augu við það, sækja fjármagnið og líka að deila því út.