145. löggjafarþing — 147. fundur,  6. sept. 2016.

Vatnajökulsþjóðgarður.

673. mál
[16:04]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin og vænti þess að heyra um þinghelgina í seinna andsvarinu. Það er líka eitthvað svo skáldlegt í því að ætla sér að loka Vonarskarði. En látum það liggja milli hluta.

Ég vildi spyrja þingmanninn af því að hann er svo vel að sér um þessi mál hvort það séu einhver svæði sem hann telji að væri fengur í að fella undir þjóðgarðinn, þ.e. sem ríkið ætti að kaupa, aðliggjandi þjóðgarðinum eða væri mikilvægt að ná þar inn. Og sömuleiðis af því að hann fjallaði náttúrlega dálítið um þá stóriðju sem smátt og smátt er að þróast innan þjóðgarðanna sem er öll þessi ferðamennska, hvernig hann sjái það þróast. Nú sjáum við að leigubílstjórar eru farnir að greiða Isavia fyrir að fá að sækja farþega suður á Keflavíkurflugvöll og mig langar að spyrja hvort hann sjái fyrir sér, eftir því sem viðskipti aukast með náttúru landsins inni á svæðunum, að það muni þróast gjaldtaka fyrir aðgang þeirra fyrirtækja sem ganga á jöklana eða innan garðsins með ferðamenn og eru í raun og veru selja aðgang að náttúrunni.